29 Janúar 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haldlagt 530 kannabisplöntur í janúar. Plönturnar, sem flestar voru á lokastigi ræktunar, fundust við húsleitir á ýmsum stöðum í umdæminu en um er að ræða allnokkur aðskilin mál. Það nýjasta kom upp á Álftanesi í gær, líkt og áður hefur komið fram. Samhliða hefur verið lagt hald á ýmsan búnað sem tengist starfseminni, m.a. nokkurt magn gróðurhúsalampa. Einnig má nefna að lögreglan stöðvaði kannabisræktun sem var í burðarliðnum í húsi í Hafnarfirði en þar var fyrirhuguð framleiðsla í töluverðu mæli. Þess má geta að árið 2008 lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hald á um 700 kannabisplöntur.