11 Febrúar 2022 15:05

Lagnaðarís á Ölfusvatnsvík í morgun mældist 4 sm þykkur.   Farið var út á bátum og reynt að brjóta leið að þeim stað sem til stóð að hífa flugvélina upp og gekk það sæmilega en lagði hins vegar jafnharðan aftur.  Í gær var vatnshiti mældur í vatninu frá botni og upp og var hann á bilinu 0,1 til 0,2 °C Því er ljóst að við ramman reip er að draga hvað ísmyndun varðar miðað við veðurspá næstu daga.

Hífing á vélinni við þessar aðstæður hefur í för með sér umtalsverða hættu fyrir kafara, hættu á tjóni á vélinni með tilheyrandi röskun sönnunargagna og hættu á að olía og eldsneyti sem eftir er á henni smitist út í lífríkið.   Því hefur aðgerðum verið frestað um sinn.  Nú mun stýrihópur verkefnisins hittast og gera áætlun um björgun vélarinnar og síðan verður farið af stað í það verkefni þegar veður og aðstæður leyfa.  Ljóst er að það verður ekki strax.

Fjölskyldur þeirra sem létust í þessu hörmulega slysi hafa beðið lögreglu um að koma, fyrir þeirra hönd, einlægum þökkum, kærleik og aðdáun til allra sem lögðu hönd á plóg hvar sem er í ferlinu.

Aðgerð þessi er um margt athygliverð en frá fyrsta degi hefur hún einkennst af góðu samstarfi allra sem að henni komu, hvort sem það er eftir fyrirfram skilgreindu hlutverki eða sjálfstæðu framtaki einstaklinga sem vilja leggja lið og gera samfélagið betra.  Þátttakendur í aðgerðinni eru á annað þúsund og hvert handtak sem unnið var frá fyrsta útkalli verðmætt.  Ný veröld rafrænna samskipta auðvelduðu samskipti aðila, bæði við stjórnun leitar og björgunar og eins við rannsókn.  Allir hafa stefnt að sama marki án þess að á því þyrfti að hafa orð, því að hagsmunir þeirra sem leitað var að réðu ferð.

Takk