20 Október 2009 12:00

Ársskýrsla ríkislögreglustjóra fyrir árið 2008 hefur verið gefin út. Í formála segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri m.a. að í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hafi vel undirbúnir og þjálfaðir lögreglumenn staðið vaktina. Framganga þeirra hafi vakið aðdáun.

Haraldur víkur að þeim umfangsmiklu og flóknu málum sem embætti ríkislögreglustjóra hefur haft til meðferðar á síðustu árum og segir m.a: „Starfsmenn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hafa sýnt aðdáunarvert andlegt þrek við rannsóknarstörf sín, m.a. í þeim fyrirferðarmiklu og altöluðu málum sem þeim hafa verið falin til úrlausnar á undanförnum árum. Þeir hafa þolað ómaklegar árásir, persónulegt níð og jafnvel hótanir á opinberum vettvangi án þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Þegar frá líður og sagan verður skoðuð mun þó enginn efast um að starfsmenn embættisins hafa unnið í samræmi við gildandi lög og sinnt störfum sínum af fagmennsku og með réttsýni að leiðarljósi.“

Uppbygging fari ekki forgörðum

Haraldur Johannessen segir að nú ríki óvissutímar og lögreglan standi á tímamótum. Haraldur kveður nauðsynlegt að farið verði varlega í breytingar á skipan lögreglumála hér á landi. „Mikilvægt er að stjórnvöld íhugi vel sérhvert skref sem stigið verður í þeim efnum svo að koma megi í veg fyrir að sú mikla uppbyggingarvinna sem átt hefur sér stað á undanförnum árum fari forgörðum,“ segir í formálanum.

Ársskýrsla ríkislögreglustjóra er ítarleg, rúmar 80 blaðsíður að lengd. Í henni er að finna upplýsingar um starfsemi embættisins og þau viðfangsefni sem unnið hefur verið að auk fróðleiks um afbrotatölfræði, útgjöld til lögreglumála og fleira. Þá hafa öll lögregluembættin í landinu gert ársskýrslu fyrir 2008 í samræmi við leiðarvísi ríkislögreglustjóra. Stuttar samantektir úr greinargerðum embættanna er að finna í skýrslu ríkislögreglustjóra sem nálgast má hér.