30 Júlí 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með viðamikið eftirlit um verslunarmannahelgina. Kappkostað verður að umferðin til og frá höfuðborgarsvæðinu gangi greiðlega fyrir sig og þá mun lögreglan halda úti öflugu eftirliti í öllum hverfum. Það er fátt óskemmtilegra en að koma heim úr ferðalagi og verða þess var að innbrotsþjófar hafi látið greipar sópa um heimilið. Af þeirri ástæðu munu lögreglumenn fylgjast grannt með íbúðarhúsnæði um verslunarmannahelgina en við eftirlitið verður notast við bæði merkta og ómerkta bíla.

Lögreglan vill jafnframt hvetja fólk, sem heldur burt af höfuðborgarsvæðinu í lengri eða skemmri tíma, til að ganga tryggilega frá heimilum sínum. Gott ráð er biðja nágranna um að líta eftir húsnæði. Fá þá til að kveikja ljós, fjarlægja póst, leggja í bílastæði o.þ.h.

Lögreglan hvetur líka fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir. Það getur oft skipt miklu máli að fá lýsingu á mönnum og bifreiðum. Það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan.