16 Nóvember 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á þremur undanförnum dögum handtekið fimm ökumenn vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Um var að ræða fjóra karlmenn og eina konu. Við leit í herbergi eins ökumannsins fann lögregla amfetamín sem hann viðurkenndi að eiga. Annar ökumannanna fimm ók í veg fyrir aðra bifreið og lenti í árekstri. Hann var á ótryggðum bíl og hafði áður verið sviptur ökuréttindum.  

Talsvert um umferðaróhöpp á Suðurnesjum

Talsvert hefur verið um umferðaróhöpp á Suðurnesjum í vikunni. Sum þeirra mátti rekja til hálku, en önnur voru af öðrum toga. Hið síðarnefnda átti við um ökumanninn, sem missti sígarettu í bílnum, teygði sig eftir henni og ók á staur.

Tvær bílveltur urðu , önnur á Reykjanesbraut, en hin síðari á Grindavíkurvegi í gær. Ökumaður og farþegi voru fluttir á sjúkrahús eftir seinni bílveltuna, en grunur leikur á að ökumaðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna við aksturinn. Auk þessa urðu fimm árekstrar í vikunni og ökumaður missti stjórn á bifreið sini og hafnaði utan vegar.

Lögregla beinir þeim tilmælum til ökumanna að haga akstri sínum ævinlega miðað við aðstæður, ekki síst nú þegar búast má við hálku á vegum.