25 September 2006 12:00

Fimmtán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um helgina og er það ámóta og undanfarnar helgar. Ökumennirnir eru á ýmsum aldri. Sá yngsti 18 ára en sá elsti nálægt sjötugu. Mun fleiri karlar en konur eru í þessum hópi. Athygli vekur að fjórir þessara fimmtán ökumanna hafa áður verið teknir fyrir ölvunarakstur. Það er sorglegt til þess að hugsa að fólk skuli ekki læra af reynslunni.

Annars var töluverð ölvun í borginni um helgina og lögreglan þurfti að hafa afskipti af fjölda fólks vegna áfengisdrykkju. Allnokkrar kvartanir bárust vegna hávaða í heimahúsum sem mátti ýmist rekja til partíhalda fullorðinna eða unglinga. Þá þurfti enn á ný að hafa afskipti af borgara sem svipti sig klæðum. Að þessu sinni var það maður á þrítugsaldri sem beraði sig að neðan og sýndi vegfarendum afturendann við fjölfarna umferðargötu.