6 Janúar 2009 12:00

Fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fyrst var kona á sextugsaldri tekin fyrir þessar sakir í Garðabæ aðfaranótt laugardags en hún ók bíl sínum á tvo aðra bíla og kastaðist annar þeirra jafnframt á ljósastaur. Þegar komið var á vettvang tók konan afskiptum lögreglunnar mjög illa, sparkaði í einn lögregluþjón og hrækti á annan. Hún var færð á lögreglustöð og fékk að sofa úr sér áfengisvímuna. Um kaffileytið á laugardag var karl á svipuðum aldri færður á lögreglustöð en sá missti stjórn á bíl sínum í Mosfellsbæ og hafnaði ökutækið utan vegar. Maðurinn, sem hafði þegar verið sviptur ökuleyfi, var drukkinn. Aðfaranótt sunnudags var för sautján ára stúlku stöðvuð í sama sveitarfélagi. Bíll hennar mældist á 129 km hraða á Vesturlandsvegi en stúlkan var undir áhrifum áfengis. Undir hádegi sama dag var svo piltur um tvítugt tekinn fyrir ölvunarakstur í Reykjavík en sá var stöðvaður í miðborginni. Um helgina var ennfremur einn ökumaður tekinn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna en sá var á ferð í miðborginni á sunnudagskvöld.