4 Júní 2025 08:02

Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði á tímabilinu en alls bárust 316 tilkynningar frá janúar til mars, samanborið við 274 á sama tímabili í fyrra. Þetta er tæplega 15% aukning milli ára. Sé litið til meðaltals síðustu þriggja ára er aukningin 10%. Markvissari skráning gæti skýrt þessa fjölgun. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra og tengdra aðila sem tilkynnt var um til lögreglu fyrsta ársfjórðung ársins 2025. Alls voru 642 slíkar tilkynningar um ágreining milli skyldra/tengdra eða heimilisofbeldi skráðar hjá lögreglunni, eða rúmlega 7 tilkynningar á dag að meðaltali.

Skýrslan byggir á gögnum úr málaskrá lögreglunnar og er unnin af gagnavísindadeild þjónustusviðs ríkislögreglustjóra.

Tilkynningum um ofbeldi innan fjölskyldu fjölgar

Málum þar sem árásaraðili og -þolandi tengjast nánum fjölskylduböndum, t.d. foreldrar, börn eða systkini, fjölgar ef borið er saman við síðasta ár. Aukin áhersla hefur verið hjá lögreglu á að skrá með markvissari hætti en áður sem gæti skýrt fjölgunina. Fleiri börn og ungmenni eru skráð í málunum, bæði sem árásaraðilar og -þolendur. Hlutfall árásaraðila undir 18 ára tvöfaldaðist á milli ára, úr 15% í 30%.  Börn og ungmenni undir 18 ára voru einnig 34% þeirra sem urðu fyrir ofbeldi af hendi fjölskyldumeðlims, en voru 18% á sama tímabili fyrir ári.

Alls voru 29 börn sem réðust að fjölskyldumeðlim, oftast að foreldri, í janúar til mars 2025 og um var að ræða minniháttar líkamsárás í stærstum hluta málanna. Í fjórðungi þessara mála höfðu fjölskyldumeðlimir tekist á og þá eru báðar tegundir skráð í málin (barn gegn foreldri og foreldri gegn barni).

Alvarlegt, endurtekið ofbeldi eykst

Tilkynningum þar sem grunur er um alvarlegt eða endurtekið ofbeldi gegn lífi og heilsu fjölskyldumeðlims (skv. 218. gr. b almennra hegningarlaga) fjölgaði einnig á milli ára. Alls bárust 40 slík mál fyrstu þrjá mánuði ársins, samanborið við 21 á sama tímabili 2024.

Frá janúar til mars 2025 bárust 32 beiðnir um nálgunarbann og/eða brottvísun vegna heimilisofbeldis. Það er svipaður fjöldi og árið áður, þegar 34 beiðnir bárust.

Betri skráning og samstarf

Lögreglan hefur unnið markvisst að því að bæta meðferð mála og fjölga tilkynningum um heimilisofbeldi. Nú síðast með þróun á svæðisbundnu samráði, samfélagslöggæslu og nýjum leiðarvísi um meðferð heimilisofbeldis í réttarkerfinu á 112.is. Samstarfsaðilar hafa á sama tíma endurskoðað verkferla og styrkt viðbrögð sín. Fleiri tilkynningar geta endurspeglað árangur þeirrar vinnu, en í Íslensku æskulýðsrannsókninni frá 2024 sögðust 13% nemenda í eldri bekkjum grunnskóla hafa upplifað heimilisofbeldi. Árið 2023 var hlutfallið 15%.

Öll geta tilkynnt brot til lögreglu eða tilkynnt mál til barnaverndar í síma 112 eða á ofbeldisgátt 112.is Þar eru einnig upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða vegna ofbeldis.

——

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is