16 Desember 2024 12:16
Vegna fréttar Ríkisútvarpsins síðastliðið laugardagskvöld um að stjórnsýslureglur séu brotnar þegar ferðamönnum er frávísað á Keflavíkurflugvelli er það að segja að kærunefnd útlendingamála hefur fellt ákvarðanir lögreglustjórans á Suðurnesjum úr gildi í nokkrum málum á þessu ári. Hafa verður í huga að fjöldi frávísana er kominn yfir 700 það sem af er þessu ári og hafa þessi mál aldrei verið fleiri. Þannig hefur lögreglan til að mynda frávísað 205 Albönum og 193 Georgíumönnum á innri landamærum við komu þeirra til landsins. Allt er reynt til að komast í gegn um landamærin. Það breytir ekki því að stundum verður lögreglu á í sínum störfum og er það miður. það er á misskilningi byggt að lögreglan túlki ákvæði 106. gr. útlendingalaga ansi vítt líkt haldið var fram í fréttinni. Það er ekki svo að lögregla haldi aðilum á flugvellinum lengur en þörf er á hverju sinni. Þurfi að koma aðila út fyrir Schengen – svæðið tekur undirbúningur ferðar tíma og fylgir ákveðnu skipulagi. Ákvarðanir um frávísanir eru hins vegar teknar fljótlega eftir komu útlendings til landsins.
Hvað varðar upplýsingar flugfarþega um gististað sinn hér á landi eru dæmi þess að kærunefnd útlendingamála hafi lagt til grundvallar upplýsingar um gististað sem lagðar hafa verið fram hjá nefndinni eftir að lögregla hefur tekið ákvörðun um að frávísa útlendingi frá landinu, upplýsingar sem voru ekki til staðar þegar lögregla tók sína ákvörðun um frávísun! Dæmi um slíkt er umrætt mál sem er m.a. umfjöllunarefni fréttar Ríkisútvarpsins.
Í því máli sagðist aðilinn eiga hér bókaða gistingu á ákveðnum stað og í ákveðinn tíma. Lögregla kannaði sannleiksgildi þeirrar frásagnar og kom í ljós að aðilinn átti enga gistingu bókaða á umræddum tíma. Með öðrum orðum mat lögregla það svo að hann hefði gefið yfirvöldum rangar upplýsingar. Trúverðugleikinn farinn og aðilanum frávísað.
Í úrskurðir kærunefndar kemur fram:
„„Fyrir liggur að upplýsingar sem lögregla aflaði varðandi gistingu kæranda reyndust byggðar á misskilningi, og hefur nú verið staðfest að kærandi hafi átt bókaða gistingu hér á landi.”
Umrædd fullyrðing kærunefndar virðist byggja á bókun um gistingu sem að kærandi lagði fram við kærumeðferðina og nefndin virðist hafa fengið það staðfest frá umræddum gististað. Lögregla var ekki upplýst um þessar nýju upplýsingar sem að mati lögreglu skiptu miklu við mat á trúverðugleika aðilans. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur fengið það staðfest að umrædd bókun var gerð eftir að búið var að taka ákvörðun um frávísun aðilans. Hann var því samkvæmt þessu ekki með bókaða gistingu á umræddum gististað yfir ákveðið tímabil líkt og hann hélt ranglega fram áður en tekin var ákvörðun um að frávísa honum. Því var ekki um misskilning að ræða hjá starfsmönnum embættisins líkt og haldið er fram í úrskurði kærunefndar útlendingamála.
Þá hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum gagnrýnt það verklag kærunefndarinnar að senda lögreglu ekki greinargerð þess sem kærir ákvarðanir lögreglu. Því á lögreglustjóri ekki að venjast í samskiptum við til að mynda dómsmálaráðuneytið, ríkissaksóknara eða nefnd um eftirlit með störfum lögreglu. Þá þykir lögreglustjóra eðlilegt að kærunefndin afli upplýsinga frá lögreglu ef ný gögn eða upplýsingar koma fram við kærumeðferð mála sem ekki liggja fyrir í gögnum lögreglu.
Aðstæður á Keflavíkurflugvelli eru bágbornar þegar kemur að því að hýsa menn þegar mál þeirra eru til skoðunar hjá lögreglu. Þannig er aðgengilegt svæði ekki til staðar og ekki annað í boði en að menn bíði úrlausnar eða flutnings á D svæði eða á ytri landamærum í flugstöðvarbyggingunni. Vonir standa til að úr þessu verði bætt en sá vilji dómsmálaráherra og ráðuneytis er skýr hvað þetta varðar. Það hefur verið ákall lögreglu yfir langt tímabil. Þá er ekki um það að ræða að mat og drykk sé haldið frá aðila sem bíður úrlausnar sinna mála á flugvellinum.
Gríðarlegt álag er á landamærum Íslands á Keflavíkurflugvelli. Erlendir glæpahópar vilja tryggja stöðu sína hér á landi. Hér skiptir öflugt löggæslu- og landamæraeftirlit og skýr og afdráttarlaus útlendingalöggjöf miklu. Við erum að fást við erlenda lögbrjóta og þá sem geta ekki gert grein fyrir tilgangi dvalar og uppfylla ekki önnur skilyrði komu til landsins. Það ætti ekki að valda misskilningi.
Í dag sitja, að kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum,12 útlendingar í gæsluvarðhaldi vegna innflutnings á fíkniefnum til landsins. Þeir koma frá Grikklandi, Dóminíska lýðveldinu, Spáni, Póllandi, Brasilíu, Kirgistan, Ítalíu og Nígeríu. Þá situr einn í gæsluvarðhaldi vegna brota á útlendingalögum.