14 Júní 2024 11:08
Meðfylgjandi er uppfært hættumatskort Veðurstofu Íslands vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga sem gildir til 20. júní kl. 15:00, að öllu óbreyttu.
Dregið hefur verulega úr virkni eldgossins sem hófst miðvikudaginn 29. maí 2024. Virkni er í einum gíg en gos helst nokkuð stöðugt þegar eldgos hefur staðið yfir í 16 daga. Hraunbreiðan í þessu gosi er orðin 9,2 km2 og rúmmál um 41 milljón m3 og þar með sú stærsta síðan í desember 2023. Hrauntjörn er enn til staðar en hraun rennur úr henni í virka hraunstrauminn norðan Sýlingarfells. Líklegt að gasmengun haldi áfram næstu daga. Aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra hættusvæða. Ekki er æskilegt að stunda útivist á þeim svæðum þar sem mengun frá gosinu mælist.
Bláa Lónið hefur hafið starfsemi að nýju að höfðu samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum. Á starfssvæði Bláa Lónsins er nú þéttriðið net gasmæla. Þá er veðurstöð staðsett á einni bygginu Bláa Lónsins. Eftirlit og viðbagð við hugsanlegri gasmengun er nú með allt öðrum hætti en áður hefur verið á starfssvæði Bláa Lónsins. Öryggisfulltrúi á vegum fyrirtækisins situr daglega morgunfundi aðgerðastjórnar og vettvangsstjórnar. Fylgjast þarf með opnunartímum á heimasíðu fyrirtækisins. Þar getur þurft að rýma með skömmum fyrirvara.
Umferð til og frá Bláa Lóninu eru um Nesveg og Bláalónsveg. Álag á þessa vegi er mikið og óvenjulegt enda ófært um Grindavíkurveg þar sem hraun rann yfir veginn.
Ekki er heimilt að ganga inn á gossvæðið frá bílastæðum Bláa Lónsins eða frá Grindavíkurvegi. Bannið tekur ekki til viðbragðsaðila, hóps vísindamanna og einstaklinga á vegum Blaðamannafélags Íslands með vísan til samkomulags félagsins við lögreglustjórann á Suðurnesjum . Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að vísa á brott eða fjarlægja fólk af hættusvæði
Þeir sem eiga erindi inn á hættusvæði er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni: https://loftgaedi.is/ Þar eru jafnframt góðar leiðbeiningar. Bent er á upplýsingar á vefsíðu Landlæknisembættisins, á slóðinni: https://island.is/eldgos-heilsa og vefsíðu Vinnueftirlitsins, á slóðinni: https://vinnueftirlitid.is/
Frekari upplýsingar:
- Íbúar, starfsmenn og gestir dvelja inn á hættusvæði á eigin ábyrgð. Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.
- Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í ólestri. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því að íbúar dvelji í bænum.
- Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirvara. Hætta er talin mjög mikil á jarðfalli ofan í sprungur, sprunguhreyfingum, hraunflæði og gasmengun.
- Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun. Þá hafa sprungur verið girtar af.
- Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega. Fólk haldi sig við götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
- Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum Grindavíkurbæjar, fyrirtækja, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa. Fjölmiðlafólk hefur heimild til að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja.
- Ekki þykir tímabært af öryggisástæðum að hleypa ferðamönnum að gosstöðvunum. Hættur í og við gíginn eru: Jarðfall ofan í sprungu, sprunguhreyfingar, gosopnum án fyrirvara, hraunflæði, gjóska og gasmengun.
Enn eru hættur á svæðinu og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra svæða.
Lokunarpóstar eru við Grindavíkurveg, Nesveg og Suðurstrandarveg. Flóttaleiðir frá Grindavík eru um Suðurstrandarveg og Nesveg. Flóttaleiðir frá Bláa Lóninu eru um Bláalónsveg og Nesveg. Arfadalsvíkurvegur er lokaður einbreiður malarvegur sem getur nýst ef til rýmingar kemur.
Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settar upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík. Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi. Þær hafa verið notaðar með góðum árangri.
Fáir Grindvíkingar kjósa að dvelja í bænum næturlangt. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður.
Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla og slökkvilið sinna lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur. Þá er sjúkrabíll staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma.
Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/ þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni www.almannavarnir.is
Með vísan til 23. gr. laga um almannavarnir nr. 88/2008 eru takmarkanir ekki aðrar en að framan greinir.
Framangreint fyrirkomulag gildir til 20. júní 2024 að öllu óbreyttu.