11 Apríl 2025 10:31
Stuttu eldgosi er nú lokið en smáskjálftavirkni mælist áfram á svæðinu en fer hægt minkandi. Eldgosið sem hófst kl. 9:44 að morgni 1. apríl 2025 lauk um kl. 16:45 sama dag og stóð í um 6 klukkustundir sem gerir það stysta eldgosið í þessari goshrinu á Sundhnúksgígaröðinni. Skýr merki eru um landris í Svartsengi og mælist það hraðar núna en í kjölfar síðustu eldgosa.
Veðurstofan uppfærði hættumat fyrir svæðið þann 8. apríl, sjá hættumatskort í viðhengi. Breytingar hafa orðið á nánast öllum svæðum frá síðasta mati. Svæði 3 (Sundhnúksgígaröðin) fer úr mikilli hættu (rauður litur á korti) niður í töluverða hættu (appelsínugulur litur á korti).
Svæði 4 (Grindavík) og svæði 5, 6 og 7 færast úr töluverðri hættu (appelsínugulur litur á korti) niður í nokkra hættu (gulur litur á korti). Þrátt fyrir að hættustig á þessum svæðum hafi verið lækkað er enn talsverð hætta á jarðfalli ofan í sprungur. Á svæði 1 er enn nokkur hætta (gulur litur á korti). Hættumatið gildir til 15. apríl nk., kl. 15 að öllu óbreyttu. Hættumatið felur því í sér breytingar, sjá nánar: Landris heldur áfram í Svartsengi | Fréttir | Veðurstofa Íslands
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað þann 8. apríl sl. að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig. Fréttatilkynning um breytingu á almannavarnastigi var birt á heimasíðu almannavarna kl. 16:37 þann sama dag. Sjá á slóðinni: Af hættustigi á óvissustig vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. | Almannavarnir
Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa i Grindavíkurbæ uppfærði áhættumat m.a. fyrir þéttbýlið í Grindavík þann 9. apríl sl. Áhættumatið var birt á heimasíðu almannavarna í gær á slóðinni: Nýtt áhættumat – 9. apríl 2025 | Almannavarnir
,,Niðurstöður
Á grundvelli áhættumats verkfræðistofunnar, sem m.a. tekur tillit til hættumats Veðurstofunnar og þeirra varna sem eru til staðar og unnið er sífellt að, er það niðurstaða Framkvæmdanefndarinnar og Almannavarnadeildar að áhætta allra aðila sé miðlungs, sem þýðir að til staðar séu góðar varnir gegn hættum en þó ákveðin óvissa.
Áhættumat verkfræðistofunnar Örugg er unnið fyrir þrjú svæði, þ.e. 1) gossvæði/sprengisvæði, 2) Svartsengi og 3) Grindavík (þéttbýli). Matið er unnið fyrir fjóra hópa, þ.e. 1) viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka, 2) íbúa, 3) fyrirtæki og 4) ytri aðila og ferðamenn.
Í Grindavík er áhætta metin miðlungs fyrir alla aðila, en þó há að nóttu fyrir íbúa, ytri aðila og ferðamenn. Á Svartsengissvæðinu er áhætta talin miðlungs fyrir alla aðila. Á gos-/sprengisvæði er áhættan hins vegar mjög há fyrir viðbragðsaðila, ráðgjafa og verktaka og óásættanleg fyrir ytri aðila og ferðamenn. Mælt er gegn því að óviðkomandi fari inn á gos- og sprengisvæði.
Farið er í eftirlitsferðir hvern morgun, og yfir daginn, til að kanna hvort einhverjar varnir hafi gefið sig og gert við lokanir þar sem þess kann að gerast þörf.
Áhættumatið gildir þar til nýtt áhættumat er gefið út.
Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra“
Valdheimildir lögreglustjóra samkvæmt 23. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008 virkjast ekki á óvissustigi. Á óvissustig er dregið úr viðveru lögreglu og slökkviliðs inn í þéttbýlinu í Grindavík. Lögregla sinnir almennu eftirliti í Grindavíkurbæ sem og í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum en er ekki með fasta viðveru inn í Grindavíkurbæ. Í áhættumati framkvæmdanefndar vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ er m.a. horft til vöktunargetu viðbragðsaðila að næturlagi. Ekki er að finna í áhættumatinu takmarkanir á aðgengi inn í þéttbýlið í Grindavík. Framkvæmdanefndin fer með framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavíkurbæ í samvinnu við lögreglu.
Þeir sem dvelja inn á hættusvæði gera það á eigin ábyrgð. Þannig ber hver einstaklingur ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.
Opið er fyrir alla umferð til og frá Grindavík. Bláa lónið er opið sem og hótelið Northern Light Inn.
Á svæði sunnan Voga og Reykjanesbrautar hefur verið leitað að sprengjum í gegnum tíðina. Það svæði er talið mengað af virkum sem óvirkum sprengjum sem geta valdið manntjóni ef þær springa en hiti eða hreyfingar geta haft þar áhrif. Staðsetning innan 300 metra frá miðpunkti stórrar sprengju getur valdið manntjóni. Á svæðinu eru fallbyssukúlur, sprengjuvörpur (Mortar) og æfingasprengjur. Það er hins vegar aðeins fyrir sprengjusérfræðinga að meta ástand og gerð þessara sprengna. Þá liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu né stærð þessa svæðis en Landhelgisgæsla Íslands hefur dregið upp neðangreint kort til upplýsingar. Inn á þessu svæði þurfa viðbragðsaðilar sem aðrir að halda sig við merkta gönguslóða. Vakin er athygli á þessari hættu með skiltum sem staðið hafa við upphaf gönguleiða í áratugi. Það þekkja heimamenn og útivistamenn sem gengið hafa um svæðið. Nauðsynlegt er að vekja athygli á þessum staðreyndum. Það eru tilmæli lögreglustjóra til ferðaþjónustuaðila og þeirra sem veita erlendum ferðamönnum upplýsingar að koma þessum upplýsingum á framfæri við ferðamenn. Ferðamenn haldi sig við merktar gönguleiðir og slóða. Skipulögð bílastæði eru ekki fyrir hendi né útsýnisaðstaða. Ökumenn leggi ekki bílum á og við Reykjanesbraut. Sama gildir um Grindavíkurveg.
Aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra svæða.
Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settar upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík. Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi. Þær hafa verið notaðar með góðum árangri.
Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla og slökkvilið sinna lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur.
Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/ þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni www.almannavarnir.is
Þeir sem eiga erindi inn á hættusvæði er bent á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni: https://loftgaedi.is/ Þar eru jafnframt góðar leiðbeiningar. Bent er á upplýsingar á vefsíðu Landlæknisembættisins, á slóðinni: https://island.is/eldgos-heilsa og vefsíðu Vinnueftirlitsins, á slóðinni: https://vinnueftirlitid.is/
Fréttatilkynningin verður uppfærð þann 15. apríl 2025 eða fyrr eftir atvikum.
Tilkynnist hér með.