24 Október 2006 12:00

Aldrei þessu vant er hægt að segja góðar fréttir úr umferðinni. Að vísu voru þrettán umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring en það er harla lítið miðað við aðra daga í haust. Þá er gleðilegt að segja frá því að í þessum óhöppum urðu engin slys á fólki. Þess má líka geta að í gær barst lögreglunni engin tilkynning um svokallaða afstungu

Fjórtán ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur en þó var ekki um ofsaakstur að ræða. Sem fyrr hvetur lögreglan alla ökumenn til að sýna varkárni. Það á ekki síst við í íbúðargötum en í einni þeirra fór ökumaður fullgeyst í gær og verður væntanlega sviptur ökuleyfi í einn mánuð af þeim sökum. Þá er mjög ánægjulegt að geta þess að í gær var enginn tekinn fyrir ölvunarakstur.

Þrátt fyrir að umferðin hafi almennt gengið mjög vel vantar nokkuð upp á að ökumenn noti bílbelti. Fjórtán voru stöðvaðir fyrir þær sakir í gær. Karlmenn voru þar í miklum meirihluta, einkum þeir sem eru á þrítugs- og fertugsaldri. Þá voru átján ökumenn stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi en það verður að teljast mjög mikið.

Þess má geta að lögregluliðin á Suðvesturlandi eru með sérstakt átak í gangi þar sem fylgst er með því að ökumenn virði umferðarljósin og aki ekki gegn rauðu ljósi. Í þessu sama átaki er líka fylgst með notkun bílbelta og því hvort ökumenn noti handfrjálsan búnað þegar talað er í síma. Lögreglan beinir þeim eindregnu tilmælum til ökumanna að hafa þessa hluti í lagi.