12 Desember 2017 16:16

7 ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka bifreið sviptir ökurétti. Einn þeirra reyndist að auki ölvaður. 2 ökumenn reyndust aka bifreiðum sínum þrátt fyrir að hafa aldrei öðlast ökuréttindi og aðrir 2 reyndust aka bifreiðum sínum þrátt fyrir að ökuréttindi þeirra væru útrunnin.

Þann 7. desember voru höfð afskipti af ökumanni með kínverskt ríkisfang sem reyndist ekki hafa almennt rekstarleyfi til aksturs með farþega og að auki hafði hann ekki aukin ökuréttindi til slíks. Sá var að aka með farþega sína í Bláa Lónið.   Hann var stöðvaður vegna samskonar brots í haust en virðist ekki láta sér þetta að kenningu verða.  Athyglivert er að vinnuveitandi hans var með í för að þessu sinni.

Lögreglumenn við eftirlit á Hellu að kvöldi 9. desember stöðvuðu akstur ökumanns á Þrúðvangi við almennt eftirlit þar. Sá reyndist ölvaður og var færður til blóðsýnatöku skv. venju.  Annar ökumaður sem höfð voru afskipti af, sá hinn sami og greint er frá í kaflanum um réttindaleysi hér að ofan, reyndist ölvaður.  Sá var á ferð í Hveragerði um miðjan dag þann 5. desember s.l.

Ökumaður sem mældur var á 68 km/klst hraða á 30 km/klst götu á Stokkseyri var sviptur ökurétti á staðnum.   Honum hefur verið boðið að ljúka máli sínu með sektargerð með greiðslu sektar að upphæð 45 þúsund krónur og sviptingu ökuréttar í 3 mánuði.   Auk þessa ökumanns voru 13 aðrir kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku.

Skráningarnúmer voru tekin af 5 ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni.

Slysakaflinn í þessari viku er frekar einhæfur. 9 slys eru tilkynnt til lögreglu.  8 vegna falls í hálku  og það 9 vegna falls úr stiga.  Alvarlegustu meiðslin í þessum slysum eru brot á útlim en önnur eru minni.  Í flestum þessara tilfella er um að ræða erlenda ferðamenn.