6 September 2016 15:10

Samtals urðu 10 umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku.  Í tveimur tilvikum er talið að ökumenn hafi sofnað undir stýri.  Ökumenn og farþegar sluppu með minniháttar meiðsl frá þessum óhöppum og ljóst að þar réð notkun öryggisbelta miklu auk sjálfvirks öryggisbúnaðar sem eru líknarbelgir sem blásast upp úr mælaborði og hliðum bíla að innanverðu.  Tvennt var flutt á sjúkrahús til nánari skoðunar eftir útafakstur á Skógarströnd, þar sem aðilar kvörtuðu yfir verk í hálsi.  Erlendir ferðamenn áttu hlut að sex af þessum tíu umferðaróhöppum.

Hraðamyndavélarnar, sem unnið er úr hjá lögreglunni á Vesturlandi, tóku myndir af 730 ökumönnum í sl. viku, víðs vegar um landið.  Þar af voru 106 myndir teknar með hraðamyndavélinni við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.  Lögreglumenn á Vesturlandi tóku 20 ökumenn fyrir of hraðan akstur í eftirliti í umdæminu.   Einn ökumaður var tekinn fyrir meinta ölvun við akstur eftir að hann var valdur að umferðaróhappi og stakk af. Annar ökumaður var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Í bílnum hjá honum fundust kannabisefni ætluð til eigin nota.

Einn ökumaður sem var stöðvaður í umferðareftirliti reyndist aka á fjórum nagladekkjum sem að er bannað fram í nóvember.  Var hann rukkaður um 20 þúsund krónur í sekt.

Erlendur ferðamaður tapaði „Phantom 4“ dróna á Bröttubrekku um sl. helgi.  Hann hafði verið að fljúga honum þegar dróninn gaf merki um að rafhlaðan væri að verða tóm.  Voru honum þá sen boð um að „koma heim“ en hann skilaði sér ekki.  Ferðamaðurinn leitaði árangurslaust í um 5 klukkustundir og fór síðan á lögreglustöðina og tilkynnti um hvarfið.  Núna styttist í að bændur fari til fjárleita á þessu svæði og hver veit nema einhver gangi fram á rafmagnslausan og jafnvel laskaðan dróna á Bröttubrekkunni og komi honum til byggða.