25 Október 2021 11:34
Mánudaginn 18. október kom upp eldur í íbúðarhúsi í Vík. Húsráðandi tilkynnti um eldinn sem virðist hafa átt upptök sín við eða í ljósi og var það tekið til frekari rannsóknar að slökkvistarfi loknu en slökkvistarf gekk greiðlega. Skemmdir eru af völdum elds, og reyks á húsnæðinu.
Tvær líkamsárásir voru tilkynntar í liðinni viku. Báðar taldar minniháttar. Í öðru tilfellinu var um að ræða mál sem kom upp í V- Skaftafellssýslu og er það nú til rannsóknar. Í hinu tilfellinu var um að ræða atvik sem átti sér stað í Reykjavík og verður það mál að líkindum sent til frekari meðferðar þar þegar öflun grunnupplýsinga er lokið. Almenna reglan er sú að enda þó einstaklingur geti tilkynnt eða kært brot á hvaða lögreglustöð sem er þá fer rannsókn þess fram í því umdæmi þar sem brotið er talið hafa átt sér stað.
Leiðsögumaður með hópi ferðamanna í Raufarhólshelli þann 22. október s.l. féll niður af palli þar og missti meðvitund. Fallið var um 2 metrar niður í urð. Virðist hafa sloppið án teljandi meiðsla en fékk aðhlynningu viðbragðsaðila á vettvangi og gekk sjálfur út úr hellinum.
Maður var fluttur á sjúkrahús á Selfossi eftir að hafa fengið járnslá í höfuðið þar sem hann var við vinnu á sveitabæ í Vestur Skaftafellssýslu þann 23. október. Ekki liggja fyrir upplýsingar um áverka hans en tildrög slyssins eru í rannsókn eins og skylt er þegar slys verða.
27 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt um Suðurland í liðinni viku. Flestir á svæðinu í kring um Vík og Kirkjubæjarklaustur. Tveir þeirra óku bifreiðum sínum hraðar en 140 km/klst þar sem leyfður hraði er 90 km/klst.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna eða lyfja við akstur bifreiða sinna í vikunni. Endanleg meðferð málanna bíður niðurstöðu rannsóknar á blóðsýnum sem tekin voru úr viðkomandi.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir brot á reglum um tengingu og drátt í liðinni viku. Annar ók bifreið sem dró aðra með tóg en bifreiðin sem dregin var reyndist mun þyngri en þeirri sem notuð var til dráttarins var heimilt að draga. Hin bifreiðin dró bílaflutningakerru sem á var önnur bifreið. Kerran og farmurinn þyngri en heimilt er að draga skv. skráningarskírteini bifreiðarinnar.
Í tveimur tilvikum voru ökumenn kærðir fyirr að aka með ferðamenn án tilskilinna leyfa. Annar hefur lokið máli sínu með greiðslu sektar en mál hins er enn til meðferðar hjá embættinu.
Skemmdir voru unnar á leiksvæði barna á leikskólalóð við Finnmörk í Hveragerði en atvikið var tilkynnt til lögreglu þann 19. október s.l. Rólur voru skemmdar, krotað á veggi, kveikt í dagblöðum og fleiri skemmdir unnar. Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um hver eða hverjir voru þarna að verki eru beðnir að hafa samband við lögreglu með þær upplýsingar.