26 Október 2020 10:55

Ökumenn eru hvattir til þess að fara reglulega yfir ljósabúnað ökutækja sinna og tryggja að hann sé í lagi núna í skammdeginu. Á sama hátt er rétt að minna á að endurskinsmerki bjarga mannslífum.   Gætum þess að á fatnaði barna okkar séu endurskinsmerki og að þau séu þannig staðsett að þau sjáist greinilega.

Í liðinni viku voru 38 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.   23 þeirra eru á svæðinu í kring um Vik og Kirkjubæjarklaustur, einn er í Sveitarfélaginu Hornafirði, 5 á daglegu starfssvæði stöðvarinnar á Hvolsvelli og 8 á daglegu starfssvæði lögreglustöðvar á Selfossi. 2052 ökumenn hafa verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu það sem af er ári. Af þeim er rétt rúmlega ¼ með erlenda kennitölu en ¾ íslenska. Álagðar sektir vegna þessara brota nema um 170 milljónum króna.

Fjórir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum fíkniefna. Reyndar er kannski ekki rétt að tala um „bifreiðum sínum“ því einn þessara ökumanna er grunaður um að hafa tekið bifreiðina traustataki í Reykjavík við upphaf ferðar sinnar austur fyrir fjall.   Í þeirri bifreið fundust munir sem enn er verið að finna eigendur að en ökumaðurinn gat litla grein gert fyrir tilveru þeirra í bílnum. Einn þessara fjögurra ökumanna er grunaður um að hafa einnig verið undir áhrifum áfengis við akstur bifreiðar sinnar þegar hann var stöðvaður.

Sjö stór ökutæki voru skoðuð s.k. vegaskoðun af umferðareftirlitsmönnum lögreglu í liðinni viku. Athugasemd var gerð við ástand þriggja þeirra, í einu skipti vegna ljósabúnaðar og í tveimur tilfellum vegna mikið slitinna hjólbarða.

Tvö fjársvikamál voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku.   Án þess að fara sérstaklega yfir efnisleg atriði þeirra er rétt að hvetja fólk til þess að fara gætilega þegar verið er að semja um kaup á munum af óþekktum aðilum í gegn um síður samfélagsmiðlanna því nokkuð ber á því að samningur kemst á um kaup á einhverjum munum sem seljandinn lofar að setja í póst um leið og kaupandinn er búinn að millifæra peninga.   Seljandinn hverfur síðan á braut með aurana en sendir ekkert frá sér til kaupandans.   Á sama hátt er nokkuð um það að þýfi sé selt á netinu og fólk kaupi það þar í góðri trú.   Í því sambandi er rétt að hafa í huga að slík kaup geta verið refsiverð og flokkast þá sem eftirfarandi hlutdeild í meintu þjófnaðarbroti. Förum því varlega í þessum viðskiptum.   Reglan er oftast þannig að ef að tilboðið er „of gott til að vera satt“ þá er það einfaldlega staðan.   Enn ein aðferðin sem við höfum séð er þegar aðilar sem virðast vera erlendis stofna til vinasambands við fólk og þegar það er komið á er beðið um smá aura, jafnvel til að koma í heimsókn, vegna einhverra ófyrirséðra atburða sem hafa ruglað plönunum.   Þolandinn millifærir aurana og þá er haldið áfram að skrökva upp sögum um hina ýmsu óáran sem leikið hefur viðkomandi grátt.   Til eru dæmi um að þannig hafi mönnum tekist að svíkja milljónir af fólki og þegar búið er að millifæra peningana yfir á erlenda reikninginn eru þeir strax teknir af þeim reikningi og þar með ómögulegt að nálgast þá til að reyna að lágmarka tjónið.

Tvö banaslys eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Annarsvegar slys sem varð þegar húsbíll í Grafningi brann og eigandi hans lést í brunanum. Beðið er niðurstaðna úr hinum ýmsu rannsóknum sem fylgja málinu en ekki eru vísbendingar um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Hinsvegar er um að ræða banaslys í malarnámu í Lambafelli í liðinni viku.   Unnið er að rannsókn vélarinnar, sem var flutt á verkstæði nú um helgina, og ljóst að um umfangsmikið og tímafrekt verkefni er að ræða. Jafnframt eru aðrir þættir rannsakaðir eins og skylt er þegar slys ber að höndum.   Ekki er að vænta frekari frétta af þessum málum á meðan að á rannsókn þeirra stendur.