4 Nóvember 2019 10:24

Lögreglan á Suðurlandi hvetur foreldra til þess að tryggja að börn þeirra noti endurskinsmerki nú í skammdeginu.  Jafnframt þurfa foreldrar að vera börnum sínum fyrirmynd og nota endurskinsmerki sjálf.  Hægt er að nálgast endurskinsmerki í mörgum verslunum og apotekum.

Fjögur slys eru bókuð í liðinni viku, önnur en umferðarslys.   Ferðamaður slasaðist á baki þegar bílhurð sem hann opnaði fauk á hann og kastað honum til þannig að hann féll á grjót skammt frá.   Atvikið varð þann 3. nóvember á bílastæði við Dyrhólaey og var viðkomandi fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið þaðan.

Þann 31. október slasaðist ferðamaður við Seljalandsfoss þegar klakastykki hrundi á hann úr berginu við fossinn.   Maðurinn mun hafa farið inn fyrir lokun sem búið var að setja upp vegna hættu sem ætið verður þegar ís safnast við fossinn.

Einn slasaðist við fall á göngu utandyra á Selfossi þann 1. nóvember og hlaut sá skurð á höfði.

Þá slasaðist maður þegar skot hljóp úr byssu hans og í fót viðkomandi.   Töluverðir áverkar hlutust af skotinu og var viðkomandi fluttur með þyrlu á sjúkrahús.   Um þetta mál hefur verið fjallað sérstaklega á f.b. síðu lögreglu.

11 umferðaróhöpp eru skráð í vikunni.   Af þeim eru 3 með slysum á fólki.   Þann 31. október varð maður fyrir bíl á gangbraut á Austurvegi á Selfossi. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.   Deginum áður varð árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Breiðumarkar og Sunnumarkar.   Ökumaður annarrar bifreiðarinnar mun hafa leitað sjálfur á heilsugæslu eftir óhappið.   Þá slasaðist ökumaður jeppabifreiðar þegar hún valt út af Skeiðavegi þann 29. október s.l. Meiðsl viðkomandi eru þó ekki talin alvarleg.

Einn ökumaður er grunaður um að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum fíkniefna í liðinni viku.   Við leit í bifreið viðkomandi fundust ætluð fíkniefni og í framhaldi af því var farið og leitað á dvalarstað viðkomandi.   Þar fundust nokkrar kannabisplöntur og kvaðst ökumaðurinn eiga þær og standa einn að ræktuninni.

79 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. 3614 ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur það sem af er ári og nú ríður á að draga enn úr ökuhraða því fyrstu hálkublettirnir eru farnir að gera vart við sig.     Vísbendingar eru um að mikil eftirfylgni lögreglu með umferðinni skili fækkun slysa.   Það eitt og sér sparar þjóðarbúinu gríðarlegar fjárhæðir fyrir utan þær afleiðingar, oft á tíðum langvinnar, sem slysin hafa í för með sér.