31 Október 2016 09:11

Banaslys varð á Suðurlandsvegi við Fagurhólsmýri aðfaranótt sunnudagsins 30. október s.l. þegar jeppabifreið fór út af vegi og valt.   Ökumaður var einn í bílnum og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi slyssins.  Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi og Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

Þá fauk flutningabifreið með fjárflutningavagn á hliðina á vegnum vestan við Þorgersstaði í Lóni. Ekki urðu slys á fólki.  Vagninn var tómur og því ekki meiðsl á búfénaði.

Árekstur tveggja bifreiða sem ekið var í gagnstæðar áttir varð á Laugarvatnsvegi að kvöldi kosningadags. Annarri bifreiðinni var ekið á öfugum vegarhelmingi og kvaðst ökumaður hennar, erlendur ferðamaður, hafa villst og ekki áttað sig á aðstæðum.

Harður árekstur varð á Suðurlandsvegi við Rauðalæk s.l. föstudag. Þar missti erlendur ferðamaður stjórn á bifreið sinni og lenti framan á bifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt.  Hann ásamt farþega bifreiðarinnar voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík en hafa nú verið útskrifaðir þaðan.

Lögreglumaður við umferðarstjórn á Þingvallavegi við Kjósaskarð varð fyrir bifreið þar s.l. þriðjudag en loka þurfti veginum þegar rúta valt á hliðina skammt vestan við umdæmamörkin þar.   Ökumanni bifreiðarinnar, erlendum ferðamanni,  fipaðist þegar hann ætlaði að stöðva bifreiðina og lenti  hún á lögreglumanninum á lítilli ferð og féll lögreglumaðurinn í götuna en meiðsl hans eru minniháttar, einungis marinn á sköflungum.

28 voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. af þeim eru 21 erlendir ríkisborgarar en 7 íslenskir.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur á Selfossi.