28 Mars 2022 10:42

28 ökumenn voru í vikunni kærðir fyrir að aka of hratt á Suðurlandi.  Af þeim reyndust 6 vera á meiri hraða en 130 km/klst á 90 km/klst vegi en ökumaður sem ók Suðurhóla á Selfossi með 120 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 50 km/klst situr væntanlega uppi með 180 þúsund króna sekt og 3 mánaða sviptingu ökuréttar.

4 ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis.  Einn þeirra reyndist vera að aka svitpur ökurétti.

Ökumaður vörubifreiðar með uppmokstur úr grunni á Selfossi kærður fyrir að flytja of þungan farm.   Reyndist við vigtun 4,3 tonnum yfir leyfðir ásþyngd á stöðvunarstað.

Eitt mál kom upp er varðar heimilisofbeldi.  Það í hefðbundnum rannsóknarfarvegi.

Eftirgrenslan fór í gang þann 27. mars þegar maður sem hugðist ganga til móts við gönguhóp við Geitafell skilaði sér ekki.   Um það leiti sem kalla átti björgunarsveitir til leitar kom hann fram og hafði farið á mis við hópinn.

Björgunarsveitir voru kallaðar til að kvöldi dags þann 24. mars til leitar að barni sem ekki hafði skilað sér á heimili sitt í uppsveitum Árnessýslu.   Drengurinn skilaði sér af sjálfsdáðum heim um klukkutíma eftir að eftirgrenslan hófst og leit því afturkölluð.

Stúlka slasaðist þegar hún féll af hestbaki við Hveragerði þann 27. mars s.l.   Flutt á heilsugæslu til aðhlynningar.  Ekki vitað um eðli meiðsla.

Ferðamaður slasaðist á fæti á göngu sinni í Reykjadal þann 21. mars.   Björgunarsveitir aðstoðuðu við flutning viðkomandi  til móts við sjúkrabíl sem flutti hann á heilsugæslu.

5 umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku.  Öll án teljandi meiðsla.

15 járngrindum til að girða af t.d. byggingasvæði var stolið  frá húsbyggingu í Breiðumýri á Selfossi einhvern tíma á tímabilinu frá 18 til 21. mars s.l.    Þá var jafnframt stolið viðeigandi steinklupum sem grindurnar standa í.  Hafirðu upplýsingar um málið viljum við gjarnan frétta af því í síma 444-2000 eða í tölvupósti á sudurland@logreglan.is