15 Febrúar 2016 08:55

Fjórar minni háttar líkamsárásarkærur komu til kasta lögreglu í síðustu viku. Maður var sleginn í andlitið inni á veitingastað á Selfossi aðfaranótt laugardags.  Hann hlaut ávera í andliti og gleraugu sem hann bar brotnuðu.  Hinar þrjár líkamsárásirnar tengdust  heimilisofbeldi og eru þau mál til rannsóknar.

Lögregla var kölluð til vegna 18 umferðaróhapa og tilkynnt var um níu slys á fólki. Ekki var um að ræða alvarleg meiðsl.  Eins og þegar er komið fram lést kínverskur ferðamaður í Reynisfjöru í síðustu viku.  Það mál er í rannsókn en línur eru nokkuð ljósar um það sem þar gerðist.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir fíkniefnakstur, átta fyrir hraðakstur, tveir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar, tveir fyrir að aka bifhjóli án réttinda og einn fyrir brot á reglum um öxulþunga.

Lögreglumenn höfðu að öðru leyti í mörgu að snúast þar sem 173 verkefni, sem ekki eru skráð sem sakamál, eru skráð í síðustu viku. Má þar nefna 17 verkefni sem voru vegna aðstoðar við útlendinga.  Í flestum tilvikum var ástæðan að þeir voru hér og þar, í okkar víðáttumikla umdæmi, fastir í snjó.