19 Júlí 2016 17:11

Alls  urðu 12 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku, flest minniháttar og án meiðsla.  Rúta lenti aftan á fólksbíl við afleggjaran að bænum Munaðarnesi sl. mánudag.  Fimm ára barn sem var farþegi í fólksbílnum fótbrotnaði og var flutt á sjúkrahús til meðferðar.  Allir í fólksbílnum voru í öryggisbeltum og barnabílstólum en um harðan árekstur var að ræða.  Engin meiðsla urðu á fólki í rútunni sem var full af erlendum ferðamönnum.  Tildrög óhappsins voru þau að ökumaður fólksbílsins hægði ferðina og ætlaði að beygja til vinstri við afleggjara en ökumaður rútunnar taldi að hann ætlaði að hleypa sér framúr.

Eldur kviknaði í hjólhýsi við söluskálann Baulu sl. sunnudag.  Ökumaðurinn var rétt kominn að söluskálanum og ætlaði að fara að leggja við bensíndælurnar þegar fólk kom hlaupandi þar að og lét hann vita að eldur logaði í hjólhýsinu.  Starfsmenn söluskálans brugðust hárrétt við og fjarlægðu gaskúta og kældu hjólhýsið með vatni þar til að slökkviliðið frá Borgarnesi mætti og réð niðurlögum eldsins.  Talið er líklegast að kviknað hafi í út frá rafgeymi sem var inni í hjólhýsinu en málið er í rannsókn.  Hjólhýsið er mikið skemmt að innan og jafnvel talið vera ónýtt.

Erlendir ferðamenn voru tilkynntir við laxveiðar í óleyfi í Haukadalsá í Dölum.  Þarna mun hafa orðið einhver misskilningur milli söluaðila og þessara ferðamanna því þeir héldu að með því að kaupa veiðikort í vötnum væri þeim heimilt að stunda laxveiðar í öllum ám á Íslandi.  Lögreglan mætti á staðinn og leiðrétti misskilninginn og héldu ferðamennirnir á brott við svo búið með öngulinn í rassinum.

Lögreglan veitti ökumanni á jeppa eftirför á Snæfellsnesi eftir að tilkynnt hafði verið ítrekað um aksturslag hans.  Mældist hann á mjög miklum hraða og þegar náðist að stöðva akstur hans í Grundarfirði kom í ljós að hann var á stolnum bíl og hann hafði aldrei öðlast ökuréttindi.  Þá var hann grunaður um að vera undir áhrifum áfengis við aksturinn sem og að vera undir áhrifum margs konar lyfja.   Maðurinn var handtekinn og færður í fangaklefa og síðan var tekin skýrsla af honum þegar hann var til þess klár. Í ljós kom að maðurinn hafði stolið bílnum á bílasölu í Reykjavík og ekið honum upp í Borgarfjörð þar sem hann reyndi að stela sér olíu á sveitabæ.  Þegar hann varð var við lögregluna reyndi hann að stinga hana af en það tókst ekki sem fyrr greinir.