1 Júní 2016 11:01

Alls urðu 14 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku.

Erlendir bifhjólamenn lentu í vandræðum á ferð sinni um Snæfellsnes sl. föstudag er þeir fengu á  sig snarpa vindhviðu móts við Gríshól í Helgafellssveit. Einn þeirra missti hjólið sitt útaf og lenti hann illa á öxlinni.  Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi.

Fjórir erlendir ferðamenn lentu í hremmingum í sama hvassviðri austan Grundarfjarðar og fauk húsbíllinn þeirra og valt í vegkantinum.  Að sögn lögreglumanna var ekki stætt á vettvangi í mestu vindhviðunum.  Einn ferðamaðurinn festist aftan við ökumannssætið en fljótlega náðist að losa hann.  Óttast var að einn farþeginn hefði hlotið innvortis meiðsli og var hann því fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík en var útskrifaður daginn eftir.  Aðrir sem í bílnum voru hlutu minniháttar áverka og fluttir á heilsugæslustöðina í Grundarfirði til skoðunar.

Ökumaður sem var einn í bíl missti bílinn útaf við brúna yfir Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi, þar sem bíllinn fór nokkrar veltur.  Slapp ökumaðurinn án teljandi meiðsla en var nokkuð lerkaður.  Bíllinn var mikið skemmdur og var hann fjarlægður af kranabíl.

Ungum ökumanni fjórhjóls fipaðist við akstur þess á vegslóða á Akranesi og endaði hjólið ofan í sjó.  Pilturinn slapp við alvarleg meiðsli.

Einn ökumaður sem stöðvaður var í vikunni var talinn vera ölvaður og undir áhrifum fíkniefna.  Hlaut hann viðeigandi meðferð.

Tveir ökumenn voru teknir fyrir meinta ölvun við akstur.

Töluvert ónæði hlaust af hávaða frá skoteldum sem kveikt var í nærri Bifröst í Norðurárdal um kl. 01:30 aðfaranótt sl. sunnudags.  Taldi tilkynnandinn að flestir íbúar á Bifröst hefðu vaknað við lætin.  Talið er að þeir sem kveiktu í skoteldunum hafi verið þeir sömu og veltu bíl nærri skotstaðnum og hlupust síðan á brott.  Óvíst er hverjir voru þarna að verki.  Nokkru áður en bíllinn fannst var tilkynnt að honum hefði verið stolið frá sumarbústað í grenndinni.  Málið er í rannsókn. Tekið skal fram að lögreglan veitir engin leyfi fyrir notkun skotelda á þessum tíma en leyfilegur tími til að skjóta upp flugeldum er um áramótin og fram á þrettándann.  Utan þess tíma þarf sérstakt leyfi lögreglustjóra.

Um 500 ökumenn voru sektaðir fyrir of hraðan akstur í sl. viku.  Um 150 þeirra voru myndaðir af hraðamyndavélinni við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls.  Um 40 voru mældir með hraðamælingartækjum i lögreglubílunum víðs vegar í umdæminu en flestir voru mældir á hringveginum.