14 Júlí 2016 11:26

Með lögum nr. 61 frá 10. júní 2016, um breytingu á lögreglulögum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (menntun lögreglu), er Lögregluskóli ríkisins lagður niður frá 30. september nk. Menntun lögreglu færist á háskólastig og sett er á stofn mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu innan embættis ríkislögreglustjóra. Embætti skólastjóra Lögregluskólans er lagt niður og tekur ríkislögreglustjóri við forstöðu þeirra verkefna sem færast undir hann. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  1. Menntun lögreglumanna færist á háskólastig. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu er sett á stofn innan embættis ríkislögreglustjóra.
  2. Hlutverk mennta- og starfsþróunarseturs er m.a.
  3. að annast starfsnám nema í lögreglufræðum við háskóla í samstarfi við háskóla,
  4. að hafa umsjón með símenntun lögreglumanna innan lögreglu,
  5. að annast skipulagningu og framboð sérhæfðra námskeiða, eftir atvikum í samstarfi við háskóla eða á grundvelli alþjóðasamstarfs,
  6. að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um menntun lögreglumanna,
  7. að annast alþjóðasamskipti á vettvangi lögreglumenntunar,
  8. að annast önnur verkefni er lúta að menntun og fræðslu lögreglu.

Ríkislögreglustjóri hefur að undanförnu unnið að undirbúningi þessa nýja hlutverks embættisins. Starfsmannamál, húsnæðismál og skipulagning framtíðarverkefna hafa verið efst á baugi í þeim efnum og er stefnan mótuð og undirbúningur langt á veg kominn. Reiknað er með að færðar verði um 100 milljónir króna til ríkislögreglustjóra vegna þessa og mun starfsmönnum fjölga.

Ríkislögreglustjóri hefur falið Ólafi Erni Bragasyni, sálfræðingi embættisins, daglega stjórn mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu.

Ríkislögreglustjóri, 14. júlí 2016.