26 Maí 2009 12:00

Þegar húsráðandi við Barðaströnd á Seltjarnarnesi, fæddur árið 1935, kom heim til sín um kl. 19:50 í gærkvöld og hafði tekið öryggiskerfið af heyrði hann umgang á efri hæð hússins. Þegar hann fór að athuga hverju það sætti mætti hann manni sem sló hann umsvifalaust í andlitið. Húsráðandi, sem var einn heima, féll við. Í kjölfarið var hann bundinn á fótum og á höndum með límbandi. Þá birtist í íbúðinni annar maður. Saman tóku þeir m.a. úr og skartgripi til handargangs áður en þeir hurfu á braut og skyldu gamla manninn eftir. Íbúanum tókst að losa sig eftir u.þ.b. 20 mínútur og kalla eftir aðstoð. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar, meiddur í andliti eftir höggið.

Vísbendingar eru um að gerendur hafi brotið sér leið inn um glugga á annarri hæð hússins, bakatil. Árásin á húsráðanda hafi svo átt sér stað þegar hann óvænt kom að innbrotsþjófunum við iðju sína.

Lýsing á málsaðilum er eftirfarandi; báðir íslenskir, annar um tvítugt, sirka 178 sm á hæð, brún augu, grannur, með svartan eða bláan bakpoka úr grófu strigaefni. Hann var með drapplitaðan klút fyrir andlitinu og klúturinn náð yfir nef og spísslaga niður að hálsi. Hetta eða húfa huldi hluta andlitsins. Ekki er ólíklegt að hann hafi verið í ljósum jakka og hefbundnum gallabuxum, skórnir hafi verið svartir strigaskór, eða keimlíkt því. Aðilinn gæti verið með dökka húð eins og eftir sólböð. Mjög óljós lýsing er af hinum manninum. Íbúinn taldi sig muna að kallað var milli mannana nafnið Marri eða einhverju álíka.

Stolið var um 60 armbandsúrum, þar af tveimur nýjum úrum, u.þ.b. 70- 90 armbandskeðjum og 4  karlmanns gullhringjum.

Þeir sem urðu óeðlilegra mannaferða varir á og við Barðaströnd á Seltjarnarnesi fyrir og eftir kl. 20 í gærkvöld eða þeir sem geta gefið upplýsingar um hverjir kunna að hafa verið þarna að verki, eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444 1100.