21 Maí 2025 16:16

Þessir snillingar í Álfhólsskóla í Kópavogi fengu í vikunni sérstaka viðurkenningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fyrir þátttöku í Jafningjafræðslu til nemenda í 6. bekk Álfhólsskóla. Stelpurnar heita Elínborg Dóra, Elma Björk, Eyrún Dísa og Fríða Rakel, en þær eru nemendur í 9. bekk við sama skóla.

Það voru samfélagslögreglumenn sem afhentu viðurkenningarnar til stelpnanna við heimsókn í Álfhólsskóla, en við það tækifæri fylgdust þeir með  þegar þær héldu fræðslu fyrir tvo hópa í 6. bekk skólans. Þar var fjallað um sakhæfi, mörk, taka lögin í sínar hendur og stafrænt ofbeldi. Virkilega góð og vel framsett fræðsla hjá stelpunum, sem eiga aldeilis framtíðina fyrir sér í hverju því sem þær munu taka sér fyrir hendur.

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitir hér með eftirfarandi nemendum í 9. bekk viðurkenningu fyrir þátttöku í Jafningjafræðslu til nemenda í 6. bekk við Álfhólsskóla. Með frábæru framlagi og jákvæðni hafið þið stuðlað að öryggi, fræðslu og samheldni innan skólans. Við metum þátttöku ykkar mikils og óskum ykkur velfarnaðar í framtíðinn.“ Svo stóð á viðurkenningarskjali lögreglunnar, en hún vonast til að fleiri skólar fylgi því góða fordæmi sem hér hefur verið sýnt.