24 Febrúar 2021 18:11

Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurlandi

  • Hættustig almannavarna í Árnessýslu vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesi
  • Hættustig almannavarna á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi
  • Upplýsingar um viðbrögð vegna jarðskjálfta

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi og Veðurstofu Íslands, hefur ákveðið að hækka almannavarnarstig í Árnessýslu á hættustig vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesi. Hættustigi almannavarna var lýst yfir á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi fyrr í morgun.

Ákvörðun er tekin þar sem óstöðuleikinn nær yfir stórt svæði en jarðskjálftarnir í morgun hafa verið á milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar. Engir skjálftar hafa fundist milli Kleifarvatns og Bláfjalla á þessu ári en í sögunni hafa þar orðið skjálftar 6,5 að stærð.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur eitthvað verið um skriðuföll á Reykjanesi vegna skjálftanna. Meðal annars féll talsvert af grjóti yfir gamla Suðurstandaveginn sem nú er aflagður. Einnig hafa tilkynningar borist af grjóthruni í Þorbirni við Grindavík, úr Keili, við Djúpavatnsleið og við Kleifarvatn.

Ef skjálftavirkni færist austar með stærri skjálfta stækkar áhrifasvæðið og nær þá u.þ.b. yfir Reykjanesskaga, norður í Hvalfjarðarsveit, umhverfis Þingvallavatn og austur að Þjórsá. Á því svæði eru mörg fjöll sem nýtt eru til útivistar, m.a. Esjan, Hengill, Ingólfsfjall, Vífilsfell, Helgafell og Keilir. Fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót eða snjór getur hrunið.

Almannavarnir hvetja fólk til þess að gera sér grein fyrir hættum sem stafa af hrinum sem þessum. Auk þess eru íbúar á þekktum jarðskjálftasvæðum beðnir um að kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta.

  • Mikilvægt að halda ró sinni.
  • Húsgögn: Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða vegg. Festið létta skrautmuni.
  • Lausir munir og skrautmunir: Stillið þungum munum ekki ofarlega í hillur eða á veggi án þess að festa þá tryggilega þannig að léttari munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta.
  • Kynditæki og ofnar: Kynnið ykkur staðsetningu og lokun á vatnsinntaki og rafmagnstöflu. Leki getur valdið miklu tjóni ef ekki er lokað strax fyrir vatnið. Sama gildir um frágang á þvottavélum og uppþvottavélum.
  • Skápahurðir: Geymið þungan borðbúnað í neðri skápum / skúffum og setjið öryggislæsingar / barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim.
  • Svefnstaðir: Fyrirbyggið að skápar, málverk, brothættir og þungir munir geti fallið á svefnstaði. Varist að hafa rúm við stóra glugga og hlaðna milliveggi.
  • Rúður: Tryggið að glerbrot fari ekki yfir svefnstaði og íverustaði fólks. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum.
  • Útvarp og tilkynningar: Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
  • Símar: Hafa ber í huga að farsímar duga skammt ef rafmagn dettur út í lengri tíma. Þá getur verið gott að eiga hleðslutæki til að hafa í bifreið eða hleðslubanka til að hlaða farsíma. Sendu SMS til þinna nánustu í stað þess að hringja (sérstaklega eftir stóran jarðskjálfta) til að minnka álag á símkerfi í hamförum.

Nánar er hægt að kynna sér varnir og viðbúnað að heimasíðu almannavarna, : https://www.almannavarnir.is/frettir/jardskalftar-varnir-og-vidbunadur/

Einnig er mikivægt að kynna sér viðbrögð við jarðskjálfta: https://www.almannavarnir.is/natturuva/jardskjalftar/vidbrogd-vid-jardskjalfta/?fbclid=IwAR2gYAc_pW_BH4CL6LFL8FP42hp_m9Ef_Xv80tgNoRfp78pMIoXQOt4Twoo

Almennt um hættur á þekktum jarðskjálftasvæðum þar sem fólk er beðið um að gæta varúðar:

  • Vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga er fólki bent á að forðast brattar hlíðar þar sem grjóthrun getur orðið og hætta á skriðuföllum getur aukist. Skriður og grjóthrun geta átt sér stað eftir stóra jarðskjálfta, líklegast á svæðum með óstöðugar hlíðar, bratta klettaveggi og laust efni, t.d. í nágrenni Kleifarvatns, Esjuna, Ingólfsfjall, Bláfjöll, Hengill, Keilir, Helgafell, Vifilsfell og fleiri þekkt útivistasvæði.
  • Skjálftar af stærð M5.5-6.5 geta átt sér stað á Reykjanesskaganum. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni víða á áhrifasvæðinu.
  • Gas getur safnast fyrir í lægðum þegar það er logn eða hægur vindur.
  • Háir rekkar í vöruhúsum og/eða verslunum geta verið varasamir og hafa ber umferð fólks á slíku svæði í huga við jarðskjálfta.