5 Maí 2023 13:30

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarið haft til rannsóknar mál sem snýr að umfangsmikilli sölu og dreifingu fíkniefna, en um er að ræða kannabisefni í formi sælgætis, þ.e. í hlaupböngsum og súkkulaði. Töluvert magn þessara efna/sælgætis var haldlagt í tveimur húsleitum á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem lögreglan tók í sína vörslu mikið af vape hylkjum, pennum og vökva sem innihélt THC. Grunur er um að sömu aðilar hafi jafnframt stundað sölu og dreifingu kannabisefna með þeim hætti, en við fyrrnefndar aðgerðir var einnig lagt hald á reiðufé. Tveir karlmenn um þrítugt voru handteknir í þágu rannsóknarinnar, sem miðar vel, en hinir sömu eru nú lausir úr haldi.

Lögreglan hvetur foreldra/forráðamenn til að vera á varðbergi og ræða við börn sín um þær hættur sem fylgja þegar fíkniefni eru annars vegar. Mál sem þetta er ekki einsdæmi, en önnur af sama toga hafa líka komið upp í öðrum lögregluumdæmum.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um.