19 Apríl 2009 12:00
Talsvert hefur verið um kvartanir til lögreglu vegna hávaða frá bifhjólamönnum sem leggja leið sína á Ingólfstorg í Reykjavík. Tilkynnendum finnst m.a að bifhjólin séu á köflum þanin svo mikið að ónæði hljótist af. Vegna þessa fór lögreglan á Ingólfstorg fyrir helgina og hitti þar bifhjólamenn að máli. Hinir síðarnefndu voru beðnir um að taka meira tillit til þeirra sem búa og starfa á þessu svæði og var erindi lögreglunnar mjög vel tekið. Sem fyrr mun lögreglan kappkosta að eiga gott samstarf við bifhjólamenn, hér eftir sem hingað til. Það skal jafnframt áréttað að bifhjólamenn eru almennt til fyrirmyndar í umferðinni en fáeinir úr þeirra röðum geta auðveldlega varpað rýrð á allan hópinn. Svo virðist hafa verið í þessu tilfelli.