29 Júní 2018 15:32

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, í samvinnu við tollyfirvöld, hefur undanfarnar vikur haft til rannsóknar umfangsmikið fíkniefnamál, sem varðar innflutning á tæpum 3 kg af kókaíni. Fimm voru handteknir í síðasta mánuði í þágu rannsóknarinnar og úrskurðaðir í gæsluvarðhald, en einn er enn í haldi lögreglu á grundvelli almannahagsmuna. Þá sæta tveir mannanna farbanni. Fimmmenningarnir, fjórir karlar og ein kona, eru allir af erlendu bergi brotnir. 

Rannsókn málsins er á lokastigi, en hún hefur jafnframt verið unnin í samvinnu við löggæsluyfirvöld í Þýskalandi og Bandaríkjunum, auk Europol. Hraðflutningafyrirtækið DHL hefur einnig veitt aðstoð við rannsókn málsins. Um nokkuð viðamiklar aðgerðir var að ræða og þakkar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu enn fremur öðrum lögregluembættum fyrir veitta aðstoð í málinu. 

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.