26 Nóvember 2012 12:00

Lagt var hald á um 200 grömm af marijúana og nokkur hundruð þúsund krónur í peningum í aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á föstudagskvöld. Tveir karlar á þrítugsaldri voru handteknir í þágu rannsókninnar, en talið er að peningarnir séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Annar mannanna hafði einnig stera í fórum sínum og voru þeir sömuleiðis teknir í vörslu lögreglu.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.