10 Apríl 2025 09:53
Stjórn SSNV (Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra) veitir árlega viðurkenninguna Byggðagleraugun þeim ráðuneytum, stofnunum, fyrirtækjum og/eða verkefnum í landshlutanum sem þykja hafa skarað fram úr með fjölgun starfa og/eða verkefna eða á annan hátt stuðlað að uppbyggingu í héraðinu.
Í ár hlaut Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, ásamt Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, þessa viðurkenningu. Það er embættinu mikill heiður og dýrmæt staðfesting að taka á móti Byggðagleraugunum 2025.
Í rökstuðningi stjórnar SSNV kemur fram:
„Lögreglan á Norðurlandi vestra hlýtur viðurkenninguna Byggðagleraugun fyrir markvissa og metnaðarfulla nálgun við mótun og framkvæmd löggæslu í þágu byggðajafnréttis og samfélagslegrar velferðar á svæðinu. Undanfarin misseri hefur lögreglan eflt sýnileika sinn til muna, meðal annars með öflugri nærveru á samfélagsmiðlum þar sem upplýsingagjöf og fræðsla til almennings eru í forgrunni. Með þessu hefur lögreglan tekið mikilvægt skref í átt að bættri tengingu við íbúa, ekki síst unga fólkið í landshlutanum. Sérstaka athygli vekur þátttaka lögreglunnar í samstarfsverkefninu Öruggara Norðurland vestra. Þar kemur hún að sameiginlegu átaki með sýslumannsembættinu, sveitarfélögum, ungmennasamböndum, heilbrigðisstofnunum og kirkjunni á svæðinu. Markmið verkefnisins er að auka skilning á ofbeldi og skaðsemi þess, styrkja forvarnir og bæta þjónustu við brotaþola og aðra í viðkvæmri stöðu. Með þessu eflist einnig samvinna stofnana við úrlausn mála, sem hefur bein áhrif á öryggi og traust íbúa á opinberri þjónustu.
Lögreglan hefur jafnframt aukið viðveru sína á vettvangi, bæði í þéttbýli og á þjóðvegum svæðisins. Opnun lögreglustöðvar í Húnaþingi vestra þann 1. september 2023 var stór áfangasigur fyrir nærþjónustu í héraðinu og undirstrikar mikilvægi þess að löggæsla sé til staðar um allt land.
Með því að leggja áherslu á nærveru, samráð og traust hefur Lögreglan á Norðurlandi vestra sýnt hvernig hægt er að innleiða opinbera þjónustu með skýr byggðasjónarmið að leiðarljósi. Hún er því verðugur handhafi viðurkenningarinnar Byggðagleraugun“
Á síðustu misserum hefur átt sér stað ákveðin nýsköpun í starfsemi lögreglunnar í héraðinu, þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á samfélagslöggæslu. Sú nálgun byggir á virku samstarfi og samvinnu við stofnanir, einstaklinga og aðra hagaðila, með hliðsjón af svæðisbundnum þörfum. Forvarnarstarf embættisins er mótað í samræmi við þarfir samfélagsins og byggt á niðurstöðum rannsókna.
Þá má einnig nefna sem nýmæli að innan embættisins starfar nú borgaralegur sérfræðingur með bakgrunn í kennslu, félagsþjónustu og barnavernd. Eitt af hans meginhlutverkum, auk þess að skipuleggja samfélagslöggæslu og afbrotavarnir, er að tryggja góða þjónustu við borgara og efla samstarf við aðrar stofnanir. Við lítum á það sem eina af okkar skyldum að leiðbeina borgurunum og veita þeim aðstoð eftir bestu getu.
Það er von okkar og trú að með þessu verklagi stuðlum við að auknum lífsgæðum íbúa í landshlutanum og gerum hann eftirsóknarverðan til búsetu.
Ásdís Ýr Arnardóttir, sérfræðingur embættisins í samfélagslöggæslu og afbrotavörnum, veitti viðurkenningunni viðtöku við hátíðlega athöfn á ársþingi SSNV í dag. Henni til fulltingis var Pétur Björnsson, yfirlögregluþjónn.