Lögreglan á Austurlandi Stefnumörkun lögreglunnar á Austurlandi árið 2021

1. Inngangur

Lögreglan á Austurlandi birti stefnumörkun í fyrsta sinn fyrir árið 2020. Um tilraunaverkefni var að ræða.
Lykilmarkmið embættisins var að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa. Stefnan tók mið af því markmiði. Áhersla var meðal annars lögð á aukinn sýnileika, markvissari greiningu gagna og upplýsingamiðlun, aukin samvinna við íbúa og lykilstofnanir og áhersla á innra starf, þar á meðal samvinnu deilda lögreglu og stöðva.
Tölur úr þolendakönnun embættis Ríkislögreglustjóra fyrir árið 2020 og viðhorfskönnun félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir sama ár benda til að lögregla sé á réttri braut. Að því sögðu eru breytingar á stefnu þessa árs því smávægilegar og markmiðin sömuleiðis.
Með útgáfu og kynningu á stefnumörkuninni er leitast við að styrkja starfsemi lögreglu, gera vinnu hennar og markmið sýnilega íbúum og auka samstarf og skilning þar á milli.
Helstu tölur lögreglu fyrir árið 2020 má finna hér í fylgiskjali þar sem þær eru bornar að markmiðum og áætlunum sem settar voru það ár.

 

2. Markmið

Lögreglan stefnir að aukinni þjónustu við íbúa með markvissum aðgerðum til fækkunar brota og slysa. Þannig nái hún því lykilmarkmiði að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa og þeirra sem starfa og dvelja í umdæminu.

 

3. Hugmyndafræði

Lögreglan telur að með áherslu á innra starf með viðvarandi umbótavinnu, sem og með

  • áframhaldandi markvissu samstarfi við stofnanir og íbúa á svæðinu
  • faglegri tölfræðilegri greiningu á tíðni og umfangi brota og stöðu verkefna með vísan til settra markmiða
  • sýnileika
  • markvissri frumkvæðisvinnu í umferðarmálum og öðru eftirliti sem lögreglu heyrir til

megi enn auka gæði löggæslunnar og þjónustu við íbúa og ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

 

4. Framtíðarsýn

Að lögreglan á Austurlandi verði ávallt tilbúin að takast á við þau verkefni sem upp kunna að koma af styrk, fagmennsku og innan tímamarka þannig að þjónusta hennar verði hnökralaus og af bestu gæðum.

 

5. Stefna / áherslur

5.1. Samvinna og samskipti

Lögregla lítur á það sem forgangsatriði að tryggja samvinnu við lykilstofnanir og hagsmunaðila. Þar er átt við stjórnendur sveitarfélaga á svæðinu, félagsþjónustu og barnavernd en einnig slökkvilið í ljósi aðstæðna og nátturvár hvers konar, Landsbjörg og Veðurstofu sem og Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), Vegagerð og Rauða krossinn.
Þá stefnir hún að virku samstarfi og samtali við íbúa á svæðinu, til að mynda með útgáfu stefnumörkunar sem þessarar og reglulegra upplýsingamiðlunar um stöðu mála á heimasíðu lögreglu, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.

5.2. Innra starf

Lögregla stefnir að því að auka upplýsingamiðlun til starfsmanna þannig að þeir verði á hverjum tíma vel upplýstir um það sem efst er á baugi bæði innan stofnunar og utan. Hún stefnir og að efldri þjálfun og menntun starfsmanna þannig að þeir verði ávallt tilbúnir að takast á við þau verkefni er upp koma.
Leiðarljós í samskiptum er virðing, trúnaður, kurteisi og heiðarleiki.

5.3. Afbrot og verkefni

Umferðarmál
Stefnt er að því að fækka umferðarslysum með sýnileika lögreglu á völdum stöðum og tímum og með beinum afskiptum. Áhersla verði lögð á að ná niður hraða þar sem þess er þörf en ekki síður á öryggismál eins og vanrækslu á notkun öryggisbelta, notkun snjalltækja við akstur og lögbundna skoðun ökutækja. Þá er áhersla lögð á að upplýsa á heimasíðu meðal annars og á samskiptamiðlum um verkefni lögreglu.

Fíkniefnamál
Stefnt er að því með öflugri greiningarvinnu að auka eftirlit og afskipti vegna fíkniefnabrota og efla þannig forvarnir. Þá er stefnt að áframhaldandi markvissri notkun fíkniefnaleitarhunds embættisins hvort heldur við landamæraeftirlit eða á öðrum stöðum þar sem grunur leikur á broti.

Útlendingamál
Stefnt er að öflugu eftirliti með dvalar- og atvinnuréttindum útlendinga, með vinnustaðaeftirliti meðal annars auk öflugs landamæra- og öryggiseftirlits í tengslum við ferjusiglingar.

Heimilisofbeldi
Stefnt er að aukinni kynningu á samstarfsverkefni lögreglu og sveitarfélaga um aðgerðir vegna heimilisofbeldis. Í því felst meðal annars að upplýsa hvaða aðstoð þolendum og gerendum stendur til boða. Það verði til að mynda gert á samfélagsmiðlum lögreglu og sveitarfélaga sem og í landshlutablöðum og miðlum.

 

6. Markmið/áætlun embættisins fyrir árið 2021

7. Eftirfylgni /umbætur

Lögreglan stefnir að því að kynna megin niðurstöður er varða þróun brota og valinna verkefna sem nefnd eru í kafla sex hér að framan, á heimasíðu lögreglu, samfélagsmiðlum og fjölmiðlum í byrjun næsta árs.
Lögregla mun og freista þess í ársbyrjun 2022 að hitta samstarfsaðila með það að markmiði að fara yfir og bæta það sem betur má fara og efla það sem vel er gert. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu í febrúar.
Þá mun umbótahópur, sem allir starfandi lögreglumenn á svæðinu heyra til, koma saman eigi síðar en í janúar á næsta ári og rýna stefnumörkunina með það að markmiði að meta hvernig til tókst og ákveða næstu skref.

 

Helstu tölur ársins 2020 bornar saman við markmið/áætlanir sama árs.

Bráðabirgðaniðurstöður ársins 2020 liggja nú fyrir. Þær eru þessar helstar:

1) Þjónusta – öryggi

a) Markmið var sett um að hlutfall þeirra sem telja lögreglu skila góðu starfi verði ekki undir 85%.

i) Niðurstaðan var 97%

b) Markmið var sett um að hlutfall þeirra sem telja sig mjög eða frekar örugga í umdæminu verði ekki undir 90%.

i) Niðurstaðan var 99%

c) Markmið var sett um að hlutfall íbúa sem sjá lögreglumann eða lögreglubíl á sínu svæði oftar en einu sinni í viku verði ekki undir 55%.

i) Niðurstaðan var 73,8%

2) Samstarf

a) Stefnt var að markvissu samstarfi við stofnanir á svæðinu og félagasamtök

i) Vegna COVID á síðasta ári var samstarf við sveitarfélög, HSA og Rauða krossinn afar þétt. Áttatíu og fimm fundir voru haldnir í aðgerðastjórn fjórðungsins vegna COVID með þessum stofnunum og tuttugu og átta í almannavarnanefnd. Það samstarf á eftir að skila sér í öðrum samstarfsverkefnum þessara aðila

3) Greining og skráning brota og verkefna

a) Hegningarlagabrot

i) Stefnt var að fækkun hegningarlagabrota um um 3% miðað við meðalfjölda brota síðastliðin fimm ár.

(1) Hegningarlagabrotum fjölgaði um 8% miðað við meðalfjölda brota síðastliðin fimm ár. Þeim fækkaði hinsvegar frá síðasta ári um 15%.

b) Umferðarslys / umferðalagabrot

i) Stefnt var að fækkun umferðarslysa með auknum sýnileika og afskiptum, þar á meðal að leggja aukna áherslu á öryggismál eins og vanrækslu á notkun bílbelta, notkun snjalltækja við akstur og lögbundna skoðun ökutækja.

(1) Slysum fækkaði um 43% miðað við meðalfjölda slysa síðastliðin fimm ár. Slysum fækkaði frá síðasta ári um 17%. (Slysum hefur farið fækkandi tvö ár í röð, frá 2018 til 2020.)

c) Heimilisofbeldismál

i) Gert var ráð fyrir fjölgun skráðra heimilisofbeldismála með aukinni kynningu lögreglu og sveitarfélaga til íbúa um samstarfsverkefni þessara aðila og aukna þjónustu og aðstoð til þolenda og gerenda

(1) Skráðum brotum í tengslum við heimilisofbeldi fjölgaði um 270% frá meðaltali síðustu fimm ára og frá síðasta ári um 136%. (Tiltölulega fá brot sem um ræðir og því geta hlutfallstölur verið háar.) Sambærilegar tölur félagsþjónustu sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Múlaþings, hafa hinsvegar ekki farið upp að sama skapi. Má því gera ráð fyrir að nákvæmari skráning þessara mála hjá lögreglu kunni að skýra í það minnsta hluta af fjölguninni.

d) Frumkvæðislöggæsla

i) Umferðarlagabrot

(1) Skráðum umferðarlagabrotum fækkaði um 1% miðað við árið 2019. Þeim fjölgar hinsvegar um 29% miðað við meðalfjölda brota síðastliðin fimm ár. (Skráðum umferðarlagabrotum á landsvísu fækkar um 26% milli áranna 2019 og 2020. Heimild Bradabirgdatolur-2020_GB.pdf (logreglan.is).)

(a) Kærum vegna vanrækslu á notkun bílbelta fjölgaði frá árinu 2019 um 80%. Þeim fjölgaði einnig sem meðaltal síðustu fimm ára um sama hlutfall, 80%

(b) Kærum vegna farsímanotkunar fjölgaði frá árinu 2019 um 152%. Þeim fjölgaði einnig sem meðaltal síðustu fimm ára um 423%.

(c) Númeraafklippum fjölgaði frá árinu 2019 um 13%. Þeim fækkaði hinsvegar sem meðaltal síðustu fimm ára um 27%.

ii) Fíkniefnabrot

(1) Gert var ráð fyrir fjölgun fíkniefnabrota með öflugri greiningarvinnu og aukinni notkun fíkniefnaleitarhunds meðal annars.

(a) Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði sem meðaltal áranna 2015 til 2018 en fækkaði um 45%frá árinu 2019. Þeim fækkaði sem meðaltal brota árin 2015 til 2019 um 7%. (Fíkniefnamál voru óvenju mörg árið 2019 í samanburði og tengist útihátíðum það ár.)

Tilkynna brot

Smelltu hér til að tilkynna brot
eða sækja um leyfi.
Nánar

112 Neyðarnúmer

Þarft þú aðstoð lögreglu – hringdu þá í 112
112

Hafðu samband

Ef erindið er ekki brýnt sendu okkur tölvupóst í gegnum formið eða hringja í síma 444 0600 Lögreglan minnir einnig á fíkniefnasímann 800 5005.

Tilkynna brot

Hér er hægt að tilkynna brot rafrænt

Áfram

Leyfi

Hér er hægt að sækja um leyfi rafrænt

Áfram

Kærumóttaka

Óska eftir tíma í kærumóttöku

Ósk um tíma

Lögreglan á Austurlandi Á Facebook

Comments Box SVG iconsUsed for the like, share, comment, and reaction icons
Fleiri færslur

LÖGREGLAN Á Instagram