27 Október 2016 12:09

Fjölmennt lið lögreglu leitaði að karlmanni í Bryggjuhverfinu í Reykjavík í gærkvöld, eftir að íbúi þar tilkynnti um alvarlegar hótanir sem honum höfðu borist símleiðis auk þess sem tilkynning barst skömmu síðar um mann í hverfinu vopnaðan hnífi. Tilkynningarnar voru metnar alvarlegar og viðbúnaður lögreglu í samræmi við það. Fólust aðgerðir meðal annars í því að lokað var tímabundið fyrir umferð á svæðinu meðan leit stóð yfir. Sérsveit ríkislögreglustjóra var enn fremur kölluð á vettvang.

Aðgerð lögreglu stóð yfir í ríflega þrjár stundir og lauk með handtöku á manni á þrítugsaldri, en sá tilkynnti upphaflega um mann með hníf. Tilkynnandinn var óvopnaður.

Hættuástandi var aflétt rétt ríflega eitt í gærkvöldi. Hinn handtekni bíður yfirheyrslu.