12 Mars 2007 12:00

Lögregluhundar fundu ætluð fíkniefni á þremur stöðum í Reykjavík um helgina. Á föstudag þefaði einn af hundum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu uppi talsvert af fíkniefnum við húsleit. Talið er að um hass sé að ræða. Aðfaranótt laugardags fóru lögreglumenn að öðru húsi í borginni en þeim til aðstoðar var annar lögregluhundur úr K-9, sem er heitið á hundasveit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir lá grunur um fíkniefnaneyslu í íbúð í húsinu. Grunurinn reyndist á rökum reistur því þegar inn var komið fann hundurinn strax fíkniefni sem voru geymd þar í tösku. Ekki var aðgerðum lögreglu á staðnum þó lokið því hundurinn sýndi annarri íbúð á öðrum stað í húsinu líka mikinn áhuga. Fór svo að þar fundust líka ætluð fíkniefni en segja má að lögregluhundarnir hafa sannað gildi sitt enn og aftur um þessa helgi.