10 Mars 2023 16:40

Lögreglumaðurinn Sigrún Sjöfn Ámundadóttir varð á dögunum leikjahæst í efstu deild kvenna í körfubolta, en hún á nú að baki 376 leiki. Sigrún Sjöfn er leikmaður Hauka, en á löngum og sigursælum ferli hefur hún einnig leikið með Skallagrími, KR, Hamri, Grindavík og Fjölni. Auk þessa lék hún um tíma með Olympique Sannois í Frakklandi og Norrköping Dolphins í Svíþjóð. Á árunum 2007-2021 lék Sigrún Sjöfn enn fremur 57 landsleiki fyrir Ísland. Þegar litið er til helstu tölfræðiþátta körfuboltans í efstu deild er Sigrún Sjöfn líka alls staðar í efstu sætum, þ.e. þriggja stiga skot, stoðsendingar, stolnir boltar og fráköst og segir það allt um hversu frábær leikmaður hún er.

Við hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu erum mjög stolt af Sigrúnu Sjöfn og óskum henni innilega til hamingju með leikjametið. Hún kom til starfa hjá embættinu haustið 2019 og er lögreglumaður á lögreglustöðinni á Vínlandsleið í Grafarholti. Sigrún Sjöfn er jafnframt ein af nokkrum Samfélagslöggum í umdæminu, en þeirra hlutverk er m.a. að efla tengslin við almenning og bæta þjónustuna, ekki síst gagnvart unga fólkinu. Þar sem annars staðar hefur Sigrún Sjöfn staðið sig mjög vel enda er hún mikil og góð fyrirmynd.