10 Janúar 2008 12:00

Nýverið færði Ólafur Magnússon, eigandi heildsölufyrirtækisins Donna ehf., Lögregluskóla ríkisins að gjöf hjartarafstuðtæki af gerðinni Heartsine Samaritan PAD.

Lögreglumenn eru oft fyrstir á vettvang þar sem einhver hefur farið í hjartastopp og þess vegna er mjög mikilvægt að allir lögreglumenn kunni endurlífgun. Einnig er nauðsynlegt að þeir hafi aðgang að hjartarafstuðtæki og búi yfir góðri þekkingu til að nota slík tæki. Bílamiðstöð embættis ríkislögreglustjórans hefur búið 16 lögreglubifreiðar hjartarafstuðtækjum af gerðinni Heartsine Samaritan. Fleiri tegundir hjartarafstuðtækja eru notuð af lögreglunni en þau tæki hafa einstök lögregluembætti fengið í gegnum tíðina.

Talið er að allt að 300 manns deyi árlega hérlendis af völdum hjartastopps en það er algengasta ástæða skyndidauða. Skyndilegt hjartastopp hjá fullorðnum er í meirihluta tilfella vegna takttruflana frá neðri hólfum hjartans, svokölluðum sleglatakttruflunum (sleglahraðtaktur og sleglatif), en þá dælir hjartað engu blóði. Við hjartastopp missir viðkomandi meðvitund, hefur engan púls og hættir að anda eðlilega. Rafstuð er eina þekkta meðferðin til að hægt sé að koma á réttum takti á ný og nauðsynlegt er að hefja meðferðina sem fyrst.

Lykilatriði í meðferð hjartastopps eru þau að kalla eftir hjálp með því að hringja í neyðarnúmerið 112 og beita grunnendurlífgun meðan beðið er eftir aðstoð læknis, sjúkraflutningsmanna eða lögreglumanna. Mikilvægi þess að kalla eftir hjálp felst í því að tryggja sem stystan viðbragðstíma neyðarliðs, þannig að unnt sé að beita rafstuði sem fyrst gegn hinni lífshættulegu takttruflun sem valdið hefur því að hjartað hefur hætt að slá. Þar getur hver mínúta skipt sköpum.

Tíminn er mjög naumur í tilfellum sem þessum og dauðinn er innan fárra mínútna. Um það bil 50% lífslíkur eru eftir 5 mínútur og lífslíkur minnka um 7 – 10% fyrir hverja mínútu sem líður eftir það án þess að viðkomandi fái rétta meðhöndlun.

Hjartarafstuðtækið sem Lögregluskóli ríkisins fékk að gjöf er sömu gerðar og þau Heartsine Samaritan tæki sem eru í lögreglubifreiðum en er sérstaklega framleitt sem kennslutæki. Ljóst er að tækið mun nýtast skólanum mjög vel þar sem allir nemendur í grunnnámi hans fá þjálfun í endurlífgun og notkun á slíku tæki.

Nánari upplýsingar um hjartastopp og fyrstu viðbrögð leikmanna við því er að finna á heimsíðu Landlæknisembættisins, http://www.landlaeknir.is/.