26 Október 2021 15:25

Lögreglu á Suðurlandi barst í morgun kl. 04:18 tilkynning um mann vopnaðann boga og örvum á gangi við Tryggvatorg á Selfossi.   Lögreglumenn fóru á vettvang og fundu manninn fljótlega.  Fylgst var með ferðum hans nokkra stund án hans vitneskju en hann síðan handtekinn á Árvegi til móts við Hörðuvelli án mótþróa.   Maðurinn lagði niður vopn sín strax og skorað var á hann að gera slíkt.   Hann var færður í fangahús á Selfossi og bíður þess nú að verða yfirheyrður um ferðir hans og fyrirætlanir í nótt.  Sú yfirheyrsla fer fram strax og ástand mannsins leyfir.   Nokkur viðbúnaður var viðhafður vegna atviksins, sérsveit ríkislögreglustjóra sett í viðbragðsstöðu og sjúkraflutningamenn á Selfossi einnig eins og verklagsreglur gera ráð fyrir þegar fengist er við vopnaða menn.

Frekari upplýsingar um málið verða ekki gefnar að sinni en málið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi.