29 Júní 2010 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að atviki á Suðurlandsvegi, skammt norðan Bláfjallaafleggjarans, eftir hádegi sl. fimmtudag, 24. júní. Þar féll málningarfata af ökutæki og slettist úr henni á nokkra bíla sem á eftir komu. Í kjölfarið var veginum lokað þar til hreinsunarstarf hafði farið fram. Var það gert bæði til að koma í veg fyrir skemmdir á fleiri ökutækjum en ekki síður til að koma í veg fyrir slys en bílar geta hæglega runnið til á veginum við slíkar aðstæður. Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglustöðina á Krókhálsi í Árbæ í síma 444-1190 á skrifstofutíma.
Vegna þessa óhapps er rétt að rifja upp 73. gr. umferðarlaga en þar segir m.a. um hleðslu ökutækja; Farm skal flytja þannig, að eigi hafi í för með sér hættu fyrir menn eða valdi munatjóni. Þess skal ennfremur gætt, að eigi sé hætta á að farmur dragist eftir akbraut eða falli á hana. Í reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms segir ennfremur í 2. gr.; Farm ökutækis skal skorða tryggilega og festa við ökutækið. Þannig skal frá gengið að farmurinn byrgi ekki útsýni ökumanns eða hætta sé á að hann hreyfist til eða falli af ökutækinu og valdi tjóni hvort heldur sem er í kyrrstöðu eða í akstri, svo sem við snögga hraða- eða stefnubreytingu ökutækis. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá vettvangi.