6 Febrúar 2012 12:00

Karl á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar, grunaður um manndráp. Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, kom sjálfur á lögreglustöð í morgun og greindi frá atviki sem hafði átt sér stað á heimili hans í Hafnarfirði. Framburður hans var um margt óljós en strax var haldið heim til mannsins og þar fannst kona á fertugsaldri. Hún var látin þegar að var komið en á henni voru sjáanlegir áverkar. Konan var gestkomandi á heimili mannsins en þau höfðu þekkst um hríð. Lagt var hald á eggvopn í þágu rannsóknarinnar. Maðurinn sem nú er í haldi hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.

Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.