16 September 2024 15:41

Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í gæsluvarðhald til þriðjudagsins 24. september að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á andláti ungrar stúlku um kvöldmatarleytið í gærkvöld. Maðurinn er faðir áðurnefndrar stúlku, sem var 10 ára, og er hann grunaður um að hafa orðið  henni að bana.

Maðurinn hringdi sjálfur í Neyðarlínuna til að komast í samband við lögreglu, en hann var í byrjun óljós um bæði atvik og staðsetningu. Eftir nokkra stund fékkst skýrari mynd af málinu og þá um leið voru viðbragðsaðilar sendir á staðinn, sem reyndist vera í hrauninu gegnt Vatnsskarðsnámu við Krýsuvíkurveg. Þar var maðurinn handtekinn á sama tíma og leitað var að stúlkunni, en hún fannst skammt frá. Strax voru hafnar endurlífgunartilraunir, en þær báru því miður ekki árangur og var stúlkan úrskurðuð látin á vettvangi.

Við handtöku mannsins naut embættið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.