5 Júní 2022 16:14
Karlmaður á þrítugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. júlí nk. á grundvelli almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á manndrápi í austurborginni í gærkvöldi.
Upp úr kl. 19.30 í gærkvöldi fékk lögregla tilkynningar um yfirstandandi líkamsárás fyrir utan hús í austurborginni. Þegar lögregla og sjúkralið komu á vettvang var maðurinn meðvitundarlaus og andaði ekki. Strax voru hafnar endurlífgunartilraunir á manninum en þær báru ekki árangur. Sakborningur var á staðnum og var hann þegar handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Sakborningur og hinn látni voru nágrannar en ekki er talið að þeir tengist að öðru leyti.
Rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi og getur lögregla ekki tjáð sig frekar um málsatvik að svo stöddu.