29 Júní 2019 08:30
Í síðustu viku rýndum við í sögubækur og sögðum ykkur frá fyrstu lögregluþjónunum í Reykjavík í byrjun 19. aldar, en þeir voru danskir og lítt til fyrirmyndar sökum drykkjuskapar. Áfram voru þó Danir ráðnir til lögreglustarfa, en einn þeirra var Lars Möller og um hann er þetta ritað: „Hvort Möller hafi verið drykkjumaður, er hann kom hingað, eða hvort hann hefur aflað sér þess ágalla hér, skal látið ósagt, en það var annað erfiðara en að verða drykkjumaður í Reykjavík um það leyti, eins og bæjarbragur var hér þá. Hitt er víst, að 1837 var hann orðinn svo óreglusamur, að honum var vikið frá, og hljóta þá að hafa verið mjög mikil brögð að, því menn kölluðu ekki allt ömmu sína hér í þá daga.“
Í ritinu Lögreglan í Reykjavík, sem kom út á fjórða áratug síðustu aldar, segir líka frá Dananum Hendrich Hendrichsen, sem var fenginn hingað til lögreglustarfa, og ekki fær hann betri dóma. „Hann bjó með ráðskonu, sem madama Bagger hét, í svo nefndri hneykslanlegri sambúð. Hendrichsen rak veitingar, en mátti ekki selja áfenga drykki, sem hann þó engu að síður gerði, og var því margsektaður fyrir án þess að hrifi. Hjá honum voru og haldin svo nefnd píuböll, og lék þá Hendrichsen undir á flautu. Það gefur að skilja, að slíkt næturgauf hefur ekki verið hollt fyrir lögreglustörfin, og veitingamennskan í heild sinni ekki samrýmanleg þeim, enda varð Hendrichsen drykkjumaður og fyrir þá sök að leggja niður stöðu sína 20. ág. 1856. Fékk hann 60 rd. eftirlaun úr bæjarsjóði og fór til Kaupmannahafnar, en ekki blessaðist honum þarvistin betur en svo, að hann lenti á letigarðinum og dó þar.“