4 Júlí 2025 10:51
Alls munu 96 nemendur hefja nám í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn við Háskólann á Akureyri í haust, 40 prósent konur og 60 prósent karla. Er það mesti fjöldi nýnema sem hefur nám í lögreglufræði og er meðalaldur þeirra tæplega 25 ár sem er örlítið hærra en síðustu ár.
Um 250 einstaklingar sóttu um nám í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri nú í vor en umsóknarfresti lauk 30. mars síðastliðinn. Af 250 umsækjendum stóðust 235 skilyrði til háskólanáms og var þeim í framhaldi boðið að þreyta inntökupróf sem hófust 4. apríl og stóðu til 23. apríl.
Alls skráðu 217 umsækjendur sig í inntökuprófin en þegar á hólminn var komið mættu 174. Að loknum fyrri hluta inntökuprófanna stóðu 121 umsækjendur eftir sem voru bakgrunnsathugaðir og fóru í heilsufarsskoðun.
Síðari hluti inntökuferlisins byggist á viðtali og vegur það einna mest í öllu inntökuferlinu ef frá eru taldir útilokandi þættir er snúa að bakgrunni og heilsufari.
Nú liggur fyrir að 96 nemendur hefja nám í haust og er það stærsti árgangurinn hingað til. Óskum við verðandi lögreglumönnum innilega til hamingju og hlökkum til að taka á móti þeim er þau hefja starfsnám hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu.