14 Ágúst 2017 16:07
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa borist allnokkrar tilkynningar um misnotkun greiðslukorta þar sem gestir á öldurhúsum borgarinnar sátu eftir með sárt ennið. Málsatvik eru öll á þann veg að fingralangir þjófar stela greiðslukortum af grandalausu fólki eftir að hafa fylgst með því greiða fyrir veitingar, að því að talið er. Þannig komast þessir óprúttnu aðilar yfir PIN-númer, en með það og greiðslukort undir höndunum er eftirleikurinn auðveldur. Hinir sömu fara svo í hraðbanka og taka út reiðufé, en eftir stendur eigandi kortsins í vondum málum.
Lögreglan minnir fólk á að gæta að sér þegar greiðslukort eru annars vegar, ekki síst þegar um er að ræða PIN-númer og þau eru slegin inn við aðstæður sem þessar.