26 Júní 2025 12:28

Það sem af er árinu hafa tæplega 200 mál komið á borð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er tengjast netglæpum. Það gera rúmlega 33 mál í hverjum mánuði, en miðað við reynslu hérlendis og á Norðurlöndunum má telja að fæst slíkra mála séu tilkynnt til lögreglu.

Þau mál sem lögregla hefur helst fengið tilkynningar og kærur um síðastliðnar vikur gagnvart einstaklingum eru:

  • Svika SMS-skilaboð
  • Gjafaleikir á Facebook
  • Símtöl þar sem aðilar segja að um vandamál sé að ræða í tölvu brotaþola
  • Tölvupóstar sem svipa til hinna svokölluðu Nígeríu-bréfa

Þá vill lögregla einnig vara við fjárfestingasvikum þar sem enn ber á tilkynntum málum þar sem fólk ætlar að fjárfesta í rafmyntum og brotamennirnir bjóðast til að aðstoða og óska eftir að fólk hlaði forriti inn í símann sinn eða inn í tölvuna sína.

Þá er lögregla sömuleiðis að fá tilkynningar um að fólk sé beðið um að samþykkja rafræn skilríki án þess að vera sjálft að reyna skrá sig inn og þess vegna áréttir lögregla að fólk skrái aldrei inn rafrænu skilríki sín nema vera 100% viss um upprunann. Þess ber líka að geta að til að taka á móti greiðslum er engin þörf á að samþykkja rafræn skilríki.

Lögregla hefur fengið tilkynningar og kærur frá fyrirtækjum sem eru að fá tölvupósta, m.a. þar sem brotamenn komast inn í tölvupóstsamskipti milli söluaðila og kaupanda og senda falsaða reikninga eða breyta bankaupplýsingum vegna reikninga.

Að lokum ber að vara við hvers kyns netglæpum, en reynslan hefur sýnt að þeir færast í vöxt yfir sumarmánuðina.

Hafir þú orðið fyrir netglæp hafðu þá strax samband við viðskiptabanka þinn og lögreglu (cybercrime@lrh.is) Það skiptir miklu máli að tilkynna um netglæp sem fyrst eftir að brotið átti sér stað.