9 Maí 2007 12:00

Karlmaður á þrítugsaldri var tekinn fyrir hraðakstur í Grafarvogi um miðnætti. Bíll hans mældist á 134 km hraða á Gullinbrú en þar er leyfður hámarkshraði 60. Ökumaðurinn hefur áður verið staðinn að hraðakstri en þó ekkert í líkingu við þetta.  Hann verður nú sviptur ökuleyfi til þriggja mánaða og fær jafnframt 110 þúsund króna sekt. Fimmtán aðrir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Tveir þeirra verða sömuleiðis sviptir ökuleyfi en báðir óku langt yfir leyfðum hámarkshraða í íbúðargötum.

Þrír voru teknir fyrir ölvunarakstur í gærkvöld og nótt en einn þeirra hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Átján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Þau voru nær öll minniháttar.