14 Febrúar 2025 13:42

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn næstkomandi skólaár við Háskólann á Akureyri. Umsóknarfrestur er til og með 31. mars 2025. Sótt er um á heimasíðu Háskólans á Akureyri. 

Allar upplýsingar varðandi umsóknarferlið er að finna á  heimasíðu Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu. Fyrri hluti inntökuferils hefst í byrjun apríl á þrekprófi, skriflegu frásagnarverkefni og sálfræðiprófi. Seinni hluti inntökuferilsins fer fram í lok apríl og byrjun maí.  Síðastliðið vor var gerð breyting á lögreglulögum og heimila þau nú inntöku nemenda í námið sem verða 19 ára á inntökuári eða eldri.  

Gert er ráð fyrir því að endanleg niðurstaða varðandi hverjir komast inn í námið liggi fyrir í júlí.

Vakin er athygli á að lögreglan leggur áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika bæði innan lögreglunnar og í þjónustu við almenning í samræmi við lykilgildi lögreglunnar um virðingu, heilindi og traust.  Því eru öll hvött til að sækja um í lögreglufræðina. 

Fyrirspurnir varðandi námið og umsóknarferlið er hægt að senda á heidrunosk@unak.is og starfsnam@logreglan.is