27 Ágúst 2024 16:29

Rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á alvarlegri líkamsárás í miðborginni á laugardagskvöld miðar vel. Hún er umfangsmikil og hefur verið í algjörum forgangi hjá embættinu frá því að málið kom upp. Lögreglan hafði snemma nokkuð skýra sýn af atburðarásinni á vettvangi og fljótlega var sextán ára piltur handtekinn í tengslum við málið. Sá var síðar úrskurðaður í gæsluvarðhald eins og fram hefur komið, en pilturinn er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni með hnífi. Hin slösuðu, tvær stúlkur og einn piltur, eru öll á svipuðu reki og árásarmaðurinn. Hann er íslenskur og báðar stúlkurnar sömuleiðis, en pilturinn sem varð fyrir árásinni er af erlendu bergi brotinn. Önnur stúlknanna slasaðist mjög alvarlega og er enn í lífshættu.

Fjölmenni var í miðborginni þegar árásin átti sér stað enda flugeldasýningu Menningarnætur nýlokið. Margir voru því í nálægð við vettvanginn þegar lögreglu og sjúkralið bar að og ber fjöldi þeirra sem hafa verið kallaðir til skýrslutöku vitni um það. Í rannsóknum lögreglu er reynt að varpa ljósi á alla þætti máls, m.a. um frekari aðdraganda atvika og hugsanleg tengsl málsaðila. Það er hefðbundið verklag og á við um þetta mál sem önnur, en ekki er tímabært að upplýsa nánar um málsatvik.

Sem fyrr segir miðar rannsókn málsins vel, en ekki er hægt að greina frekar frá einstökum þáttum hennar umfram það sem hér hefur verið nefnt.