27 Febrúar 2025 15:32

Öruggara Austurland, svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi á Austurlandi, hélt nýlega fund Reyðarfirði þar sem 50 fulltrúar frá ólíkum stofnunum og þjónustuaðilum settust saman á svokallaðri skrifborðsæfingu og æfðu samhæft viðbragð við heimilisofbeldi.

Þátttakendur komu frá lögreglu, sveitarfélögunum, HSU, sjúkraflutningum og Austurbrú auk verkefnisstjóra frá ríkislögreglustjóra og eiga skipuleggjendur og stjórnendur á svæðinu hrós skilið fyrir að tryggja svo góða þátttöku.

Áhersla var lögð á að samhæfa verklag í heimilisofbeldismálum og tryggja að fagfólk og viðbragðsaðilar sem koma að slíkum málum þekki verkferla og vinnulag. Eitt markmið með æfingunni var að lækka þröskulda á milli kerfa og þjálfa fólk í þjónustu við þolendur og gerendur heimilisofbeldis. Var það gert með dæmisögum og tilfellagreiningum þar sem heimilisofbeldi kom á einhvern hátt við sögu. Annað markmið var að safna hugmyndum fyrir framkvæmdahóp verkefnisins Öruggara Austurland að næstu verkefnum og áhersluatriðum. Má segja að vel hafi tekist til, umræður á borðum voru fjörlegar og í lok dags skiluðu hóparnir af sér óskalistum með hugmyndum að auknu samstarfi og bættri þjónustu sem framkvæmdateymi Öruggara Austurlands mun hafa til hliðsjónar í næstu skrefum verkefnisins.

Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi, segir að mikil þörf sé fyrir slíka samvinnu. „Það skiptir máli að eiga faglegt samtal milli ólíkra aðila, svo allir átti sig á hlutverki sínu og hvernig við getum unnið saman á sem skilvirkastan hátt,“ segir Margrét María. Sjúkraflutningamenn séu nýr hópur í samráðinu og að það sé mikilvægt þar sem þeir séu stundum fyrstir á vettvang þar sem ofbeldi á sér stað.