13 Júní 2025 15:23

Vitundarvakningin Góða skemmtun er hafin fyrir sumarið 2025. Markmiðið er að stuðla að jákvæðri, öruggri og ofbeldislausri upplifun á fjölbreyttum viðburðum sumarsins – bæði fyrir gesti og skipuleggjendur. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja gott skipulag og undirbúning viðburða þar sem öryggi gesta er í forgangi.

Fyrsti stóri viðburður sumarsins fer fram nú um helgina – með Bíladögum á Akureyri.

 Meginskilaboð herferðarinnar eru skýr: Góð skemmtun er örugg og ofbeldislaus.

Slagsmál, hótanir, kynferðislegt ofbeldi og áreitni eiga aldrei að líðast – sama hvar eða hvernig skemmtun fer fram.

Sumarið býður upp á fjölmarga og fjölbreytta viðburði. Líkurnar á afbrotum aukast að jafnaði með stærð og umfangi viðburða – t.d. á fjölmennum næturhátíðum – en það útilokar ekki að alvarleg atvik geti átt sér stað á minni samkomum. Þar skiptir vandaður undirbúningur og samvinna lykilhlutverki.

Á vef Neyðarlínunnar (112.is) má nálgast ráðleggingar sem styðja við örugga framkvæmd viðburða. Efnið er ætlað:

  • Viðburðahöldurum/skipuleggjendum
  • Sveitarfélögum
  • Foreldrum og forsjáraðilum
  • Ungmennum

Góð ráð fyrir viðburðahaldara

Góð ráð fyrir foreldra og forsjáraðila

Ertu með tækifærisleyfi?

Á vef sýslumanna má finna upplýsingar um tækifærisleyfi og þau leyfi sem sýslumenn hafa gefið út.  Nauðsynlegt er að vera með leyfi til að halda skemmtun eða viðburð þar sem þörf er á eftirliti eða löggæslu. Einnig ef seldur er aðgangur að samkomum óháð því hvort leyfið sé með áfengisveitingar eða ekki. Leyfi er t.d. veitt fyrir skóladansleik, tónleikahald, almenna dansleiki og útihátíðir.

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is.